Giggs: Má aldrei vanmeta Arsenal

Ryan Giggs.
Ryan Giggs. Reuters

Ryan Giggs, leikmaður Englandsmeistara Manchester United, hefur varað samherja sína við að vanmeta lið Arsenal en liðin eigast við í stórleik 3. umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Old Trafford á sunnudaginn.

Mikið hefur gengið á í herbúðum Arsenal upp á síðkastið og liðið hefur þurft að sjá á eftir sínum bestu leikmönnum, Cesc Fabregas og Samir Nasri. Arsenal hefur eitt stig eftir tvo leiki í úrvalsdeildinni og hefur enn ekki tekist að skora en Lundúnaliðið mætir þó á Old Trafford með gott veganesti eftir að hafa tryggt sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

„Arsenal er enn virkilega gott lið með gæðaleikmenn. Þegar liðið dettur í gírinn getur það unnið hvaða lið sem er í Evrópu. Þeir hafa sýnt það í gegnum árin. Ég veit að það er eitthvað um meiðsli hjá liðinu og það hefur misst nokkra leikmenn en samt sem áður eru gæðin fyrir hendi.

Arsenal hefur frábæran knattspyrnustjóra, þetta er frábært félag sem aldrei má vanmeta,“ sagði Giggs í viðtali við enska blaðið Manchester Evening News.

mbl.is

Bloggað um fréttina