Liverpool vill ekki völl með Everton

Luis Suárez fagnar marki á Anfield.
Luis Suárez fagnar marki á Anfield. Reuters

Tom Werner, stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir að búið sé að slá hugmyndir um að byggja sameiginlegan völl með nágrönnunum í Everton endanlega út af borðinu.

Stjórnmálamenn í Liverpoolborg hafa þrýst á um að félögin sameinist um nýjan völl þar sem það sé fjárhagslega hagkvæmt  fyrir alla aðila. Warner sagði við Daily Mirror í dag að það hefði verið skoðað rækilega en síðan hefði verið ákveðið að fara að óskum stuðningsmanna Liverpool sem vildu ekki sjá það að deila velli með Everton.

„Stuðningsmenn okkar eru ekki hrifnir af því, þessvegna er málið dautt. Við höfum fengið að heyra ítrekað að þeir vilji ekki sameiginlegan völl og við ákváðum að taka mark á því.  Allir þekkja þá tvo kosti sem við erum að skoða, vera um kyrrt á Anfield eða byggja völ lá Stanley Park, og við viljum ekki valda stuðningsmönnum félagsins vonbrigðum," sagði Werner.

mbl.is