Gylfi Þór til Swansea

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Reuters

Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson gengur á morgun frá félagaskiptum til enska úrvalsdeildarliðsins Swansea. Um lánssamning er að ræða en þýska liðið Hoffenheim lánar Gylfa út leiktíðina. Gylfi staðfesti þetta í samtali við mbl.is í kvöld en hann heldur utan til Wales á morgun.

Gylfi hefur komið við sögu í sjö leikjum Hoffenheim af 17 í þýsku deildinni á þessu tímabili en hann var markahæsti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð. Í undanförnum fjórum leikjum Hoffenheim hefur Gylfi ekkert komið við sögu

Swansea er nýliði í ensku úrvalsdeildinni og er í 15. sæti deildarinnar með 20 stig. Liðið hefur þótt spila afar skemmtilegan fótbolta og ætti Gylfi að falla vel inn í leikstíl liðsins en þjálfari liðsins er Brendan Rodgers, sem var um tíma við stjórnvölinn hjá Reading en Gylfi lék með Reading áður en hann var seldur til Hoffenheim haustið 2010 fyrir rúman einn milljarð króna.

Gylfi sagði við mbl.is að hann væri afar sáttur að halda aftur til Englands. Enska úrvalsdeildin væri mjög spennandi og Swansea-liðið spilaði góðan fótbolta.

Þar með verða fjórir Íslendingar sem spila í ensku úrvalsdeildinni á þessu nýja ári. Heiðar Helguson hjá QPR, Grétar Rafn Steinsson hjá Bolton, Eggert Gunnþór Jónsson hjá Wolves, sem var löglegur með liðinu í dag, og Gylfi Þór hjá Swansea.

mbl.is