Sonur Muamba: Pabbi er frosinn

Fabrice Muamba í leiknum á móti Tottenham.
Fabrice Muamba í leiknum á móti Tottenham. AP

Þriggja ára sonur Fabrice Muamba, leikmanns enska úrvalsdeildarliðsins Bolton, grét þegar hann sá föður sinn í sjónvarpinu falla í grasið með hjartastopp í leik Bolton og Tottenham í síðasta mánuði.

,,Mamma, pabbi er frosinn,“ kallaði hinn þriggja ára gamli Joshua þegar hann fylgdist með leiknum í beinni útsendingu í sjónvarpi. Sem kunnugt er tókst læknum að bjarga lífi Muamba en hjarta hans sló ekki í 78 mínútur og sjálfur lýsir hann því sem kraftaverki að hann skuli vera á lífi í dag og hafi ekki orðið fyrir neinum heilaskaða.

Unnusta Muamba segir í viðtali við enska blaðið The Sun í dag að læknar hafi tjáð henni þegar hún vakti yfir Muamba á sjúkrahúsinu að hann gæti hafi orðið fyrir heilaskaða.

,,Hann leit út fyrir að vera dáinn, eins og lík. Það er engin önnur leið að lýsa því,“ segir hin 27 ára gamla Magunda við The Sun en hún og sonur hennar voru heima og fylgdust með leiknum í sjónvarpinu.

,,Viðbrögð áhorfenda og leikmanna sögðu mér að eitthvað alvarlegt væri í gangi. Fólk grét og söng nafnið hans. Þá fór síminn að hringja. Umboðsmaður Fabrice náði í mig og staðfesti minn versta ótta, hjarta hans væri hætt að slá.“

Muamba var útskrifaður af sjúkrahúsi fyrir tíu 10 dögum og er hægt og bítandi að ná heilsu en hvort hann spili fótbolta á nýjan leik er óvíst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert