Kompany: Aldrei aftur svona

Fögnuður Manchester City var gríðarlegur.
Fögnuður Manchester City var gríðarlegur. AFP

„Mig langar til að segja að þetta sé besta stund lífs míns en ég vil aldrei þurfa að upplifa svona aftur,“ sagði Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, brosandi eftir sigurinn dramatíska á QPR í dag sem tryggði liðinu Englandsmeistaratitilinn.

„Við erum búnir að vera svo góðir á heimavelli á leiktíðinni en í seinni hálfleik komumst við bara ekki í gegnum vörn QPR. Var ég búinn að gefast upp? Nei, ég hélt alltaf í vonina. Þegar Edin Dzeko skoraði svo og jafnaði metin í 2:2 mundi ég eftir þessum leikjum þar sem við höfum komið til baka í lokin, eins og gegn Tottenham og Sunderland. Við höfðum gert þetta áður svo ég hafði enga ástæðu til að missa vonina,“ sagði Kompany.

mbl.is