Hoffenheim: Gylfi ennþá leikmaður Hoffenheim

Gylfi Þór.
Gylfi Þór. Ljósmynd/swanseacity.net

Í vefútgáfu enska blaðsins Telegraph í dag kemur fram að þýska liðið Hoffenheim hafi brugðist illa þeirri yfirlýsingu frá Swansea að félagið hafi náð samningi við Gylfa Þór Sigurðsson.

,,Gylfi er á samningi við Hoffenheim og við reiknum með því að hann mæti til æfinga þann 18. júní,“ segir Holger Tromp talsmaður Hoffenheim en Swansea greindi frá því á vef sínum í vikunni að það hafi náði samkomulagi við Hoffenheim um kaupverðið á honum og væri jafnframt búið að ganga frá persónulegum samningi við leikmanninn.

Gylfi, sem var í eldlínunni með íslenska landsliðinu gegn Svíum í Gautaborg í gær, hefur hins vegar ekki skrifað undir neinn samning við Swansea og í ljósi þess að knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers hefur ákveðið að yfirgefa Swansea til að taka við stjórastarfinu hjá Liverpool er framtíð Gylfa óráðin.

Nokkrir enskir fjölmiðlar segja að fyrsta verk Rodgers þegar hann tekur við starfinu hjá Liverpool verði að kaupa Gylfa Þór en hann á tvö ár eftir af samningi sínum við Hoffenheim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert