Moyes: Verðskuldað hjá Osman

Leon Osman fagnar marki fyrir Everton.
Leon Osman fagnar marki fyrir Everton. AFP

Það kom mörgum á óvart að Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, skyldi velja 31 árs nýliða, Leon Osman frá Everton, í sinn hóp í vikunni fyrir vináttuleikinn gegn Svíþjóð næsta miðvikudag. David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, segir valið verðskuldað.

„Þessar fréttir féllu í góðan jarðveg hjá okkar leikmönnum og starfsliði. Það var ánægjulegt að skýra frá því að Ossie hefði verið valinn í landsliðið. Hann hefur verið frábær á þessu tímabili og verðskuldar þetta,“ sagði Moyes við Sky Sports.

„Hann hefur verið ótrúlega jafn og stöðugur allan þann tíma sem ég hef verið hér. Hann mun ekki bregðast og verður tilbúinn til að hjálpa enska liðinu. Hann er með þeim klókari sem ég hef unnið með. Hann veit nákvæmlega til hvers er ætlast af honum og nær ávallt því besta út úr sér. Ég hélt að þessi möguleiki væri úr sögunni hjá honum en hann uppsker núna eftir frábæra frammistöðu á þessu tímabili,“ sagði Moyes.

Osman hefur verið í röðum Everton í 15 ár, frá 16 ára aldri, og á að baki 258 leiki með liðinu í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert