Ekki sömu mistök með Hernández og Owen

Javier Hernández fagnar einu marka sinna gegn Aston Villa um …
Javier Hernández fagnar einu marka sinna gegn Aston Villa um síðustu helgi. AFP

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Javier Hernández, mexíkóski framherjinn, hafi verið hvíldur sérstaklega í vor og sumar til að forðast að keyra hann út eins og gert hafi verið með Michael Owen á sínum tíma.

Hernández gerði heldur betur vart við sig á ný um síðustu helgi þegar hann kom inná og skoraði öll þrjú mörkin í 3:2 sigri United á Aston Villa.

Hernández skoraði 20 mörk á fyrsta tímabili sínu með United, eftir að hann kom til félagsins frá Guadalajara sumarið 2010. Hann varð meistari, var í byrjunarliði í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og var valinn leikmaður ársins hjá United. Síðasta vetur gerði hann 12 mörk og var ekki eins frískur og Ferguson segir að þá hafi strax verið gripið inní málin.

„Þegar við skoðuðum hvað hann hafði gert næstu sumur á undan lá svarið fyrir. Það er hægt að spila of mikinn fótbolta, á því er enginn vafi. Michael Owen upplifði það sem ungur maður að hann var látinn spila alltof mikið af leikjum. Þetta er mjög varasamt þegar ungir leikmenn eiga í hlut, sem enn eru að vaxa og taka út þroska. Ég held að það sé nákvæmlega það sem gerðist með Michael. Hann hefði orðið miklu betri leikmaður ef hann hefði fengið betri tækniþjálfun og hvíld sem unglingur, í stað þess að vera stöðugt að spila," sagði Ferguson við fréttamenn í gær.

„Eitt sumarið spilaði enska unglingalandsliðið á móti í Malasíu og við áttum tvo leikmenn í liðinu, og gáfum þeim mánaðarfrí þegar þeir komu aftur. Liverpool setti hinsvegar Michael beint í aðalliðið hjá sér og sumarið eftir var hann kominn í landsliðið á HM. Hann fékk því aldrei sumarfrí. Ég held að hann hafi heldur ekki fengið nægilega tækniþjálfun, það sagði hann mér allavega sjálfur þegar við ræddum þessi mál,“ sagði Ferguson ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert