Dómari: Í mesta lagi gult spjald á Nani

Nani sér rautt í kvöld.
Nani sér rautt í kvöld. AFP

„Ákvörðunin var hörð svo ekki sé fastar að orði kveðið,“ segir fyrrverandi alþjóðadómarinn Dermot Gallagher frá Írlandi í viðtali við BBC um rauða spjaldið sem Nani fékk í Meistaradeildartapinu gegn Real Madrid í kvöld.

Gallagher dæmdi í ensku úrvalsdeildinni frá stofnun hennar árið 1992 til ársins 2007 þegar hann lagði flautuna á hilluna. Hann var í átta ár á FIFA-lista.

„Real-leikmaðurinn er ekki að hjálpa Nani neitt þarna. Í versta falli sparkar Nani undir handlegginn á honum. Hann fer svo sannarlega ekki í rifbeinin eins og látbragð leikmannsins var,“ segir Gallagher.

„Ég get ekki ítrekað nógu oft að Nani er að horfa á boltann yfir öxlina á sér. Hann ætlaði ekki að meiða neinn. Í mesta lagi var þetta gult spjald fyrir hættuspark. Ef ég hefði verið að dæma get ég ekki ímyndað mér hvernig ég hefði átt að reka manninn út af fyrir þetta,“ segir Dermot Gallagher.

mbl.is

Bloggað um fréttina