McManaman sagður fá að lágmarki þriggja leikja bann

Massadio Haidara varð að fara meiddur af velli eftir tæklingu ...
Massadio Haidara varð að fara meiddur af velli eftir tæklingu Callum Mcmanaman. AFP

Enska knattspyrnusambandið hefur tekið til skoðunar skelfilega tæklingu Callum Mcmanaman, leikmanns Wigan, í sigrinum á Newcastle um helgina. Hann gæti átt yfir höfði sér að minnsta kosti þriggja leikja bann.

McManaman fór af hörku með sólann á undan sér í hægra hné Massadio Haidara sem lá óvígur eftir. Haidara var fluttur á sjúkrahús og gæti hafa skaddað liðbönd í hné, en fékk ekki einu sinni aukaspyrnu hjá dómaranum Mark Halsey sem virðist ekki hafa séð atvikið.

Úr því að Halsey brást ekki við brotinu getur enska knattspyrnusambandið tekið það til skoðunar og samkvæmt frétt BBC er búist við að McManaman verði úrskurðaður í að minnsta kosti þriggja leikja bann.

„Þetta var skelfileg tækling. Strákurinn er farinn upp á spítala og það er mun verri tilfinning en að hafa tapað leiknum,“ sagði Alan Pardew knattspyrnustjóri Newcastle.

mbl.is