Coyle tekur við liði Wigan

Owen Coyle.
Owen Coyle. AFP

Skotinn Owen Coyle verður næsti knattspyrnustjóri ensku bikarmeistaranna Wigan, samkvæmt frétt SkySports í dag, en hann tekur við af Roberto Martínez sem flutti sig yfir til Everton á dögunum.

Coyle hefur verið atvinnulaus síðan í október þegar honum var sagt upp störfum hjá Bolton eftir tæplega þriggja ára dvöl. Áður stýrði hann Burnley í þrjú ár og skoska liðinu St. Johnstone í tvö ár þar á undan.

Wigan féll úr úrvalsdeildinni í vor eftir átta ára dvöl og verkefnið hjá Coyle er því að koma liðinu aftur þangað í fyrstu tilraun.

Dave Whelan, stjórnarformaður og aðaleigandi Wigan, hefur staðfest komu Skotans til félagsins en ráðning hans hefur þó ekki  verið formlega tilkynnt ennþá.

mbl.is