Ferguson segir frá sigurformúlunni

Sir Alex Ferguson landaði fjölda titla hjá Manchester United.
Sir Alex Ferguson landaði fjölda titla hjá Manchester United. AFP

Sir Alex Ferguson hefur greint ítarlega frá hugmyndafræðinni sem gerði hann að sigursælasta knattspyrnustjóra Englands. Í viðtali við Anitu Elberse, prófessor við Harvard, skiptir hann kenningum sínum upp í átta meginkafla sem hann telur lykilinn að mögnuðum árangri Manchester United undir sinni stjórn.

Uppskriftin sem Ferguson hefur nú ákveðið að deila með öðrum birtist í heild sinni í októberhefti Harvard Business Review. Skotinn segir reyndar að líklega geti knattspyrnustjórar í dag ekki nýtt sér hugmyndafræðina, því hún byggist á því að þeir fái að minnsta kosti fjögur ár til að byggja upp sitt lið. Þolinmæði til slíks sé af skornum skammti.

Uppskriftina má sjá hér að neðan.

1. Byrjaðu á grunninum

Frá því að ég kom til Manchester United hugsaði ég bara um eitt: Að byggja upp knattspyrnufélag. Ég vildi byggja það upp frá grunni. 99% nýrra stjóra hugsa fyrst um að vinna - að halda lífi. Þeir fá til sín reynda leikmenn. Hjá sumum félögum er nóg að tapa þremur leikjum í röð, þá ertu rekinn. Fótboltinn er orðinn þannig í dag, með nýrri kynslóð eigenda og stjórnenda, að ég er ekki viss um að nokkurt félag hefði þolinmæði til að gefa stjóranum sínum fjögur ár til að byggja upp lið. Það er til lítils að vinna einn leik ef maður tapar svo þeim næsta. Það að byggja upp félag stuðlar að stöðugleika.

2. Vertu óhræddur við að byggja upp nýtt lið

Við skiptum leikmönnum í þrjá flokka: 30 ára og eldri, 23ja til 30 ára, og þá yngri. Hugmyndin var sú að yngri leikmennirnir væru að þroskast og myndu koma sér í þann gæðaflokk sem eldri leikmennirnir væru í. Ég held að maður nái bara árangri með sama lið í um það bil fjögur ár, og þá þarf að gera breytingar. Við reyndum því að horfa þrjú til fjögur ár fram í tímann og taka ákvarðanir í samræmi við það. Ég gat gert áætlanir fram í tímann hjá United því ég var þar svo lengi. Ég var mjög heppinn að því leyti. Það er erfiðast að þurfa að sleppa leikmanni sem er frábær náungi, en maður þarf að miða eingöngu við frammistöðuna úti á velli.

3. Settu há viðmið og láttu alla miða við þau

Það snerist allt hjá okkur um að halda okkur við þau viðmið sem við settum sem knattspyrnufélag. Þetta sneri að öllu í kringum liðsuppbygginguna, hvernig ég undirbjó liðið, hvatningarræðurnar og skipulagsræðurnar. Ég varð að auka væntingar leikmanna. Þeir áttu aldrei að gefa eftir. Ég sagði alltaf við þá: „Ef þú gefur eftir einu sinni, þá áttu eftir að gera það aftur.“ Ég var alltaf fyrstur til að mæta á morgnana. Á síðustu árum var margt af samstarfsfólki mínu hins vegar mætt þegar ég kom kl. 7.

Ég bjóst við enn meiru frá stjörnuleikmönnunum. Stórstjörnur með mikið „egó“ eru ekki eins mikið vandamál og fólk heldur. Þeir verða að vinna vegna þess að það passar við egóið þeirra, og þess vegna gera þeir það sem til þarf. Ég sá menn á borð við Ronaldo, Beckham, Giggs og Scholes æfa sig tímunum saman. Þeir skildu alveg að það væri ekkert auðvelt að vera leikmaður Manchester United.

4. Aldrei nokkurn tímann missa stjórnina

Ef sá dagur kæmi að stjóri Manchester United léti leikmennina stjórna sér - ef leikmennirnir fengju að ráða hvernig æfingarnar ættu að vera, hvenær þeir fengju frí, hvaða reglum skyldi fylgja og hvaða leikaðferð ætti að nota - þá væri Manchester United ekki það félag sem við þekkjum. Ég hefði aldrei leyft neinum að ráða meiru en ég. Persónuleikinn þinn verður að vera stærri en þeirra. Það koma upp tilvik þar sem maður þarf að spyrja sig hvort ákveðnir leikmenn hafi slæm áhrif á andrúmsloftið í búningsklefanum, frammistöðu liðsins, og stjórnina sem þú hefur yfir leikmönnum og starfsfólki. Ef svo er þá verður að skera á strenginn. Það er engin önnur leið fær. Það skiptir ekki máli þótt um sé að ræða besta leikmann heims. Sum ensk félög hafa skipt um stjóra svo oft að leikmennirnir öðlast ákveðin völd í klefanum. Það er mjög hættulegt. Ef stjórinn er ekki með stjórnina þá endist hann ekki í starfi.

5. Sendu skilaboð sem hæfa augnablikinu

Það vill enginn láta gagnrýna sig. Flestir bregðast vel við hrósi. Það er ekkert betra en að heyra þessi tvö orð; „vel gert“. Þetta eru tvö bestu orð sem heyrst hafa. Að sama skapi verður maður að benda leikmönnum á það þegar þeir standast ekki væntingar. Þá þarf að láta menn heyra það. Ég gerði það strax eftir leiki. Ég beið ekkert fram á mánudag með það, og þá var það líka búið. Ræðurnar fyrir leiki snerust um að fara yfir væntingar okkar, sjálfstraust leikmanna og trú þeirra hver á öðrum. Í hálfleik hefur maður kannski átta mínútur til að koma sínum skilaboðum til skila, svo það þarf að nýta tímann vel. Það er allt auðveldara þegar maður er yfir. Þegar maður er að tapa þá þarftu að láta til þín taka. Óttinn verður að koma inn í dæmið. Maður má samt ekki vera of harður, ef leikmenn eru alltaf hræddir þá standa þeir sig ekki vel. Maður þarf að leika mismunandi hlutverk. Stundum þarftu að vera læknir, eða kennari, eða faðir.

6. Búðu þig undir sigur

Það er í eðli mínu að sigra. Það kemur ekkert annað til greina. Jafnvel þó að fimm bestu leikmennirnir séu meiddir þá býst ég við sigri. Ég þori að taka áhættur eins og sást á lokamínútum leikja hjá okkur. Ef við vorum undir þegar 15 mínútur voru eftir þá tók ég sénsinn. Mér var alveg sama þó að við töpuðum 3:1 ef það þýddi að við hefðum reynt að ná jafntefli eða sigri. Á þessum síðustu 15 mínútum reyndum við allt. Við settum aukasóknarmann inn á og hugsuðum minna um vörnina. Við vissum að það yrði stórkostlegt að vinna 3:2. Ef við töpuðum 3:1 vorum við hvort sem er að tapa leiknum. Það var mikil þrautseigja í öllum mínum liðum. Þau gáfust aldrei upp. Það er frábær eiginleiki.

7. Nýttu þér að hafa yfirsýnina

Eftirlit er lokaatriðið í því kerfi sem ég nota til að stjórna. Eitt kvöldið mitt hjá Aberdeen ræddi ég við aðstoðarstjórann og annan þjálfara sem benti á að ég gæti grætt á því að stýra ekki alltaf sjálfur æfingunum. Í fyrstu sagði ég nei en ég vissi innst inni að hann hafði rétt fyrir sér. Svo ég setti stjórnun æfinga í hendur annarra og það var það besta sem ég hef gert. Ég missti enga stjórn. Ég var alltaf til staðar og gat tekið yfir þegar þess þurfti, og það er ótrúlega dýrmætt að geta fylgst svona með. Maður gat náð betri árangri með leikmann með því að sjá að hann hegðaði sér öðru vísi, eða virtist áhugalausari. Stundum sá ég jafnvel að leikmaður væri meiddur þegar hann taldi sig heilan heilsu.

8. Haltu alltaf áfram að þróast

Þegar ég byrjaði þá voru engir umboðsmenn, og þó að sýnt væri frá leikjum þá voru fjölmiðlar ekki að gera leikmennina að neinum kvikmyndastjörnum, sífellt að reyna að skrifa um þá fleiri greinar. Leikvangarnir eru orðnir betri, vellirnir eru í fullkomnu ástandi, og íþróttavísindin hafa mikil áhrif á undirbúning hvers tímabils. Eigendur frá Rússlandi og Mið-Austurlöndum, og öðrum heimshlutum hafa dælt peningum í leikinn og sett pressu á knattspyrnustjórana. Og leikmennirnir lifa í mun verndaðra umhverfi svo þeir eru viðkvæmari en þeir voru fyrir 25 árum.

Ferguson segist helst hafa gagnrýnt leikmenn sína strax eftir leik.
Ferguson segist helst hafa gagnrýnt leikmenn sína strax eftir leik. AFP
Það má aldrei láta leikmenn ná stjórninni í klefanum, segir …
Það má aldrei láta leikmenn ná stjórninni í klefanum, segir Ferguson. AFP
Stórstjörnurnar eru ekki erfiðustu leikmennirnir, segir Ferguson, enda vilja þær …
Stórstjörnurnar eru ekki erfiðustu leikmennirnir, segir Ferguson, enda vilja þær gera allt til að vinna. AFP
Cristiano Ronaldo æfði tímunum saman og vildi gera allt til …
Cristiano Ronaldo æfði tímunum saman og vildi gera allt til að vinna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert