Benzema og tæpir 4 milljarðar fyrir Suárez

Luis Suárez þykir tvöfalt dýrari en Karim Benzema.
Luis Suárez þykir tvöfalt dýrari en Karim Benzema. AFP

Spænska stórveldið Real Madrid býr sig undir að bjóða Liverpool 20 milljónir punda, jafnvirði 3,9 milljarða króna, auk franska framherjans Karim Benzema fyrir Úrúgvæann Luis Suárez í janúar.

Þetta segir í frétt enska götublaðsins Daily Star í dag. Þar segir að Suárez vilji enn komast frá Anfield þrátt fyrir góða byrjun liðsins á tímabilinu. Hann vilji komast til Madrid og að forráðamenn félagsins vonist til að með því að bjóða Benzema með í kaupunum verði Liverpool viljugra til að selja.

Í blaðinu segir einnig að Arsenal hyggist gera Liverpool nýtt tilboð í framherjann en Liverpool hafnaði umsvifalaust boði upp á um 40 milljónir punda í sumar.

mbl.is