Moses: Ætla að skora 20 mörk

Victor Moses beygir ekki frá takmarki sínu.
Victor Moses beygir ekki frá takmarki sínu. AFP

Victor Moses, leikmaður Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, stendur við takmark sitt að skora 20 mörk fyrir liðið á leiktíðinni þó hann fari ekki vel af stað hvað það varðar.

Nígeríumaðurinn skoraði í fyrsta leik sínum fyrir Liverpool gegn Swansea í september en hefur ekki komið boltanum í net andstæðinga sinna í átta leikjum síðan þá.

Moses hefur fengið fá tækifæri með Liverpool í deildinni og þar sem liðið spilar bara deildarleiki út þetta ár þar til bikarinn dettur inn eftir áramót gætu tækifærin áfram verið af skornum skammti.

„Ég vil bara skora mörk. Ég stefndi á að skora 20 mörk á þessari leiktíð,“ segir Moses sem skoraði samtals tólf mörk á síðustu leiktíð fyrir Chelsea í deild, bikar, Evrópudeild og fyrir Nígeríu í Afríkukeppninni.

„Það er enn fullt af leikjum eftir þannig vonandi get ég náð markmiði mínu. Ég tel mig hafa hæfileikana sem þarf til að gera það þannig ég hlakka til hvers einasta leiks. Þegar ég kom til Liverpool var ég í byrjunarliðinu en núna sér knattspyrnustjórinn hlutina öðruvísi og vill breyta þeim. Ég verð bara vera þolinmóður,“ segir Victor Moses.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert