Rúnar Kristinsson: Stefán er góður kostur

Rúnar Kristinsson þjálfari KR er að missa báða markmenn sína ...
Rúnar Kristinsson þjálfari KR er að missa báða markmenn sína í atvinnumennsku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allar líkur eru á að KR-ingar verði markmannslausir en bæði Hannes Þór Halldórsson og Rúnar Alex Rúnarsson eru að semja við erlend lið. Rúnar Kristinsson þjálfari KR segir að Stefán Logi sé þá kostur númer eitt.

„Ég er ekki búinn að fá þetta staðfest með Hannes og hef ekkert heyrt í stjórninni síðan í gær. Ég las þetta bara í morgun hjá ykkur. En ef þetta er staðfest þá er líklegt að ég sé að missa báða markmennina mína,“ segir Rúnar Kristinsson þjálfari KR. 

KR og Sandnes Ulf komust í gærkvöldi að samkomulagi um kaupverð á Hannesi Halldórssyni landsliðsmarkverði og í kjölfarið mun Hannes fara í viðræður við félagið um samninginn.

Rúnar Alex Rúnarsson, sonur Rúnars, sem var varamarkvörður KR-inga í sumar er líklega einnig á förum frá KR en mörg erlend félög hafa borið víurnar í markvörðinn efnilega. „Það er ekki komið neitt samkomulag um hann. Við erum í viðræðum við tvö lið en erum eiginlega búnir að draga okkur úr viðræðum við annað liðið. Það á bara eftir að klára hans persónulegu hluti og svo á liðið eftir að semja við KR. Það á eftir að klára ýmislegt áður en endanleg niðurstaða kemur. Ég vonast samt að þetta verði búið fyrir jól,“ bætti Rúnar við.

Fari svo að Hannes og Rúnar Alex haldi báðir í atvinnumennsku gæti farið svo að Stefán Logi Magnússon fylli þeirra skörð en Stefán æfði með KR-liðinu á dögunum og þekkir KR vel eftir að hafa leikið með félaginu 2007-2009. „Stefán er góður kostur. Ef við missum báða okkar markmenn þá er hann okkar kandídat. Við meira en til í að fá hann til okkar.“

Stefán Logi Magnússon
Stefán Logi Magnússon Ljósmynd/lsk.no
Rúnar Alex Rúnarsson er einnig á leið í atvinnumennsku. Að ...
Rúnar Alex Rúnarsson er einnig á leið í atvinnumennsku. Að öllum líkindum verða hans mál kláruð fyrir jól. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is