Mourinho: Mata og Essien geta farið

José Mourinho vel dúðaður á St.Marys í dag.
José Mourinho vel dúðaður á St.Marys í dag. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea segir að Juan Mata og Michael Essien geti yfirgefið félagið kjósi þeir að gera það.

Mata brást illur við þegar hann var tekinn af velli í byrjun síðari hálfleiks í 3:0 sigri Chelsea gegn Southampton og neitaði að taka í hönd knattspyrnustjóra síns. Mata hefur aðeins verið í byrjunarliði Chelsea í 9 leikjum í úrvalsdeildinni.

„Ég vil halda Mata. Ég vil ekki að hann fari. Það er mín skoðun og ósk en dyrnar hjá mér eru opnar. Dyrnar hjá félaginu eru líka opnar,“ sagði Mourinho eftir leikinn.

Framtíð Essiens hjá Chelsea er líka óviss eftir að umboðsmaður leikmannsins lét hafa eftir sér að Ganamaðurinn gæti verið á förum frá Chelsea nú í janúar. Essien hefur þurft að sætta sig við að vera mikið á bekknum en líkt og með Mata vill Mourinho ekki missa Essien en segist ekki geta lofað honum né öðrum öruggum spilatíma.

mbl.is