Aleinn í Rússlandi

Sölvi Geir Ottesen knattspyrnumaður
Sölvi Geir Ottesen knattspyrnumaður Árni Sæberg

Sölvi Geir Ottesen, landsliðsmaður í knattspyrnu, býr fjarri fjölskyldu sinni, aleinn í Yekaterinburg í Rússlandi og leikur þar knattspyrnu með FC Ural. Sölvi er í ítarlegu viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

FC Ural er ekki þekktasta knattspyrnufélag heimsins en þar spilar Sölvi Geir Ottesen, landsliðsmaður. Það vakti óneitanlega töluverða athygli þegar Sölvi samdi við liðið en hann fékk algjöran kóngasamning samkvæmt frétt Ekstra Bladet í Danmörku, einkabílstjóra, íbúð og fjölmargar milljónir. Sölvi hafði áður verið í Danmörku og leikið þar með stórliði FCK frá Kaupmannahöfn en eftir að hafa verið frystur hjá félaginu var alltaf ljóst að hann myndi færa sig um set fyrir þetta tímabil.

Sölvi drekkur te á kaffihúsinu þar sem fundur okkar fer fram. „Ég datt inn í te-menninguna eftir að ég flutti til Rússlands. Rússar drekka mikið te,“ segir Sölvi en hann kann nokkuð vel við sig við Úral-fjöllin þó fjarlægðin frá fjölskyldunni sé erfið. „Lífið í Rússlandi er nokkuð gott. Það er nóg að gera í fótboltanum og það er meginástæða þess að ég fór til liðsins. Út af fótboltanum. Ég er þarna til að spila fótbolta, ég legg til hliðar lífsgæði og félagslega pakkann en í svona aðstæðum kann ég vel við mig.“

Skype-maður mikill

Fjölskylda Sölva, Sandra Karlsdóttir kona hans og börnin þrjú, hefur komið sér vel fyrir í fallegri íbúð í úthverfi borgarinnar þar sem þjónustustigið er hátt. Fjölskyldan vildi flytja heim því fimm ára sonur Sölva er einhverfur og þarf aðstoð í leikskóla. „Danmörk á að heita velferðarríki en við vorum aldrei nógu ánægð með kerfið þar í landi. Það má margt segja um Ísland en kerfið hér er frábært og hérna heima fær sonur minn þá aðstoð sem hann þarf.“ Börn Sölva og Söndru eru Ásta 11 ára, Alexander Helgi 5 ára og Magnús Daði 3 ára. „Við einblíndum á gott hverfi og gott svæði. Við vorum svo heppin að finna það. Stuðningskerfið fyrir einhverfa er mjög gott hér á landi og sérstaklega þar sem við búum. Það var alltaf vitað að þau ætluðu að flytja heim á þessum tíma bara út af guttanum. Þannig lagað hefði ekki skipt mig neinu að vera í Tyrklandi, Grikklandi, Englandi, Þýskalandi eða Rússlandi. Maður hefði alltaf verið svolítið mikið á Skype.

Ég er eðlilega mikið á Skype því maður hittir ekki marga, hvorki þá sem kunna ensku eða tala íslensku. En það er munur að vera í landsliðinu því þá kemur maður heim oftar og fær að hitta sína nánustu. Lalli (Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari) leyfir okkur að hitta okkar fólk á milli æfinga. En það er erfitt þegar maður fer af klakanum, ég viðurkenni það.“

Flug til Yekaterinburg tekur níu klukkutíma í þremur áföngum og heildartími ferðalagsins er í kringum 17 klukkutíma. Stundum lengur sem er vont fyrir bakveika menn en Sölvi hefur glímt við meiðsli í baki í nokkur ár. „Þeir hjá Ural vita alveg hvernig ég er í bakinu og ég segi þeim líka hvernig ég er í bakinu. Ég þekki skrokkinn minn það vel í dag og veit hvenær ég þarf að hætta á æfingum. Þeir hlusta á mig og leyfa mér að ráða ferðinni.“

Úrræðin sem Sölvi hefur notað til að laga á sér bakið eru eftirfarandi. „Það er tekið blóð úr mér og hvítu blóðkornin einangruð. Þeim er síðan sprautað í bakið á mér, 20 sprautur hvorum megin við mjóhrygginn. Ég geri þetta einu sinni í viku. Þetta gerir mér gott og er alveg löglegt. Þetta er ekki eins og hjólreiðakallarnir eru að gera – langt frá því.“ Það verður eðlilega smá þögn, enda undirritaður ákaflega sprautuhræddur.

Frystur hjá FCK

Sölvi var í guðatölu hjá stuðningsmönnum FCK eftir að hafa komið liðinu inn í Meistaradeildina 2011. Gullskalli hans gegn norsku meisturunum í Rosenborg kom liðinu inn í riðlakeppnina og tryggði því fjölmarga milljarða í tekjur. Liðið var með Barcelona og Chelsea í riðlakeppninni.

Þegar Belginn Ariël Jacobs kom til sögunnar hjá FCK sem stjóri fór hinsvegar að síga á ógæfuhliðina hjá Sölva. Jacobs þessi tók Sölva úr liðinu eftir nokkrar umferðir í dönsku deildinni árið eftir og setti hann á ís. Frysti hina sjóðheitu meistaradeildarhetju. Það fór hvorki vel í okkar mann né stuðningsmenn FCK. „Þetta var allt mjög undarlegt hvernig hann bar sig að í þessum málum öllum hjá FCK.

Ég var að renna út á samning og kannski spilaði það eitthvað inn í, ég veit það ekki og hann vildi kannski byggja á mönnum sem hann vissi að yrðu áfram. FCK er þannig lið að þeir geta gert slíkt. En mér fannst ég vera besti varnarmaðurinn í þessu liði, með fullri virðingu fyrir hinum. Ég lít reyndar stórt á sjálfan mig, finnst ég alltaf vera bestur en þannig hugsunarhátt þarf maður að hafa í atvinnumennsku.“

Jacobs sagði við danska fjölmiðla að hann saknaði meiri fagmennsku hjá Sölva, nokkuð sem enginn skildi, hvorki hér á Íslandi né í Danmörku enda er Sölvi í miklum metum þar í landi eftir að hafa verið fyrirliði SönderjyskE og sýnt mikla fagmennsku eftir að hann varð atvinnumaður. „FCK er með þá stefnu að málin eru leyst innan félagsins og í búningsklefanum. Ekki í blöðunum. Þetta er mjög mikilvæg regla og hluti af regluverki FCK. Hann braut þessa reglu og þurfti síðar að biðjast afsökunar. Ég var virkilega fúll að ég væri ekki í liðinu, eins og ég segi þá fannst mér ég vera besti varnarmaðurinn þarna, en ég var ekkert að haga mér eins og smákrakki á æfingum. Það er hægt að hafa samband við hvaða þjálfara sem ég hef spilað undir og hann staðfestir að ég legg mig alltaf fram.

Jacobs var líka tekinn á teppið fyrir þetta. Ég fílaði hann aldrei sem þjálfara og hann gaf mér aldrei séns. Sumir þjálfarar eru bara þannig. Hann tók annan leikmann líka svona fyrir. Sagði í blaðaviðtölum að hann gæfi aldrei krökkum eiginhandaráritanir og annað í þeim dúr. Kom slæmu orði á hann en þessi gæi var toppmaður í alla staði.

Ég veit ekki hvort hann var að sýna öðrum leikmönnum að það væri hann sem réði en þetta var allt mjög undarlegt.“

Þrátt fyrir að vera í frystinum var Sölvi ekki gleymdur knattspyrnutoppum um Evrópu og það var mikill áhugi á hans undirskrift. Frá Englandi, Þýskalandi, Grikklandi, Tyrklandi og Norðurlöndunum, sem Sölvi sagði pent nei takk við. „Mér fannst sá kafli búinn á mínum ferli,“ segir hann en Sölvi fagnaði sænska meistarabikarnum með Djurgården 2005 auk þess að verða tvisvar sinnum bikarmeistari með liðinu. Hjá FCK vann hann dönsku deildina tvisvar og varð einu sinni bikarmeistari. Nú vildi hann fara í stærri deild og rússneska deildin er sögð vera sú áttunda sterkasta í Evrópu. „Mér leist strax vel á rússnesku deildina. Þetta er náttúrulega mikið ævintýri og að spila í svona sterkri deild gerir ævintýrið bara skemmtilegra. Þarna er ég að spila á móti mjög góðum leikmönnum, jafnvel heimsklassa mönnum eins og þeir sem eru í stóru liðunum í deildinni eins og Zenit frá Pétursborg, Moskvu-liðunum og Rubin Kazan. Svo eru fleiri lið þarna mjög góð.“

Skömmu fyrir viðtalið fór fram leikur Ural og Zenit frá Pétursborg þar sem Sölvi átti góðan leik og hélt framherjanum Hulk niðri. Hulk er af mörgum talinn einn allra besti framherji heims og kostaði Zenit-liðið 40 milljónir evra þegar hann var keyptur til félagsins. Peningarnir í toppliðunum í Rússlandi eru gríðarlega miklir, jafnvel óraunverulegir en Samuel Eto'o var leikmaður Anzi í Rússlandi og var þá launahæsti knattspyrnumaður heims. Sölvi vakti athygli rússnesku stórliðanna með frammistöðu sinni gegn Hulk og Zenit. Janúarglugginn er að opnast og nafn Sölva hefur verið nefnt við stóru liðin.

„Rússarnir eru ekkert að fylgjast mikið með því hvað er að gerast fyrir utan Rússland. Ef maður kemst inn í landið og stendur sig vel þá koma stóru liðin og taka eftir manni.“ Ural-liðið er í fallsæti eins og er en frammistaða Sölva hefur verið ljósi punkturinn.

Geggjað í Grosny

Rússland er gríðarlega stórt land þar sem vegalengdirnar eru miklar í alla leiki. Ural-liðið flýgur í alla leiki, þrjá tíma hið minnsta. „Ég fæ alltaf þrjú sæti, það er séð til þess að ég hafi eina lengju fyrir mig þannig ég leggst bara. Það hefur hjálpað mikið og álagið á bakið er minna fyrir vikið þannig að ég get spilað. Ég held að það séu níu tímabelti í Rússlandi og ég veit ekki hversu oft ég er búinn að breyta klukkunni á símanum mínum.“

Terek Grosny er í rússnesku deildinni en flestir tengja Grosny við hryðjuverk og blóðsúthellingar frekar en fótbolta. Sölvi spilaði í Grosny og segir það hafa verið ákveðna upplifun. „Við keyrðum þarna í gegn og ég held ég hafi talið 50 brynvarða bíla, bara frá hótelinu og að leikvanginum. Þegar við keyrðum út á völl var öllu lokað fyrir okkur, sérsveitin var á undan okkur og á eftir og svo var rútan bara stigin í botn. Ekkert stoppað.

Síðan kom maður á völlinn og það er eiginlega ekkert hægt að útskýra hvernig stemningin var. Hún var ótrúleg. Það má ekki blóta á vellinum og allir eru kurteisir en ofboðsleg stemning. Hermenn út um allt með alvæpni.“

Sölvi segir að stuðið sé oft mikið á pöllunum í rússnesku deildinni, þarna sé mikil stemning þó margt annað sé í ólagi. Það vissi hann svo sem fyrir en hann er lítið að velta því fyrir sér. Hann vill bara spila fótbolta og gera það vel. „Ég vissi að völlurinn hjá Ural væri fínn og það var alveg nóg. Það skiptir mig litlu máli hvort búningsklefinn er úr sandi og sturturnar með litlum krafti. Ég þarf ekkert meira en gras og bolta.

Æfingasvæðið okkar er fínt, búningsklefarnir eru...Já, bara eiginlega ekkert sérstakir en ég meina: aðstæður til að spila fótbolta eru frábærar, maður þarf ekkert meira.“

Völlur Ural-manna heitir Central Stadium og þar munu fara fram nokkrir leikir á Heimsmeistaramótinu sem fram fer í Rússlandi 2018. Það er því verið að taka hann allan í gegn sem og borgina, því umsókn Rússa var nákvæm og skýr hvað varðar borgirnar og leikvangana. Allt myndi verða í himnalagi. Völlurinn tekur 27 þúsund manns í sæti en eftir breytingar verður pláss fyrir 40 þúsund manns. „Ég sá nokkra leiki með liðinu og vissi að ef ég yrði í lagi þá myndi ég spila alla leikina.“ Hann bætir því við að það séu engin undanskot eða neitt slíkt hjá Rússunum. „Allt stenst sem þeir segjast ætla að gera og allt er á tíma. Engin vandamál, bara lausnir. Rússarnir eru mjög flottir og það hefur allt staðist sem mér var lofað. Þegar ég ræddi við umboðsmanninn minn þá sagði hann að þetta væri bara gömul mýta með Rússana. Það er ekkert bull í gangi eins og til dæmis í deildunum í Grikklandi og Tyrklandi. Þeir hafa staðið við allt sitt gagnvart mér þannig að ég get ekki annað en verið sáttur.“

Má ekki keyra

Yekaterinburg er fjórða stærsta borg Rússlands og þar býr rúmlega ein og hálf milljón manna. Það er því ekkert sem vantar í borgina og í miðbænum er allt til alls þar sem Sölvi býr. Hann kann vel við sig í borginni og hefur hitt annan Íslending sem þar býr en sá hafði upp á Sölva þegar hann frétti að hann léki með liðinu. Móðir mannsins hafði séð viðtal við Sölva á íþróttavef mbl í tengslum við landsliðsverkefni. „Ég hitti hann og það var gaman að heyra íslensku svona langt frá fósturjörðinni. Það var mjög spes. Það er aðeins einn leikmaður Ural sem talar ensku þannig að það var kærkomið að tala á sínu tungumáli.“

Leikmenn Ural eru flestir Rússar og Armenar, svo er einn Serbi og Chisamba Lungu, sá er talar ensku, er frá Sambíu.

„Ég er með íbúð í miðbænum frá klúbbnum sem er voða fínt. Þegar það kom í ljós að ég mætti ekki keyra þarna úti setti ég þá kröfu að ég fengi íbúð í miðbænum. Þeir treysta ekki hverjum sem er til að keyra þarna þannig ég er með einkabílstjóra sem skutlar mér á æfingar og til baka. Ég labba bara í miðbæinn og þarf svo sem ekkert bíl.“

„Vegakerfið þarna úti er skelfilegt. Ég hef aldrei séð annað eins. Ekki einu sinni í bíómyndum. Ég keyri eina 15-20 kílómetra á æfingasvæðið og maður er stundum klukkutíma að komast. Umferðarreglurnar eru hálf-skrýtnar. Þetta er eiginlega allt einstefna þannig að það þarf að vera mjög vakandi yfir því hvert maður á að beygja. Ætli sé ekki einfaldast að segja að Rússar séu mjög ákveðnir í umferðinni.“

Sölvi segist ekki vera besti kokkur í heimi og borða yfirleitt úti. Það er úr nægum stöðum að velja í miðborginni og maturinn og matarmenning Rússa hefur komið honum á óvart. „Þeir leggja mikla áherslu á mat. Hann er algjört sælgæti, ég nefnilega bjóst við einhverjum viðbjóði en rússnesk matargerð hefur komið mér mjög á óvart. Í svona stórborgum er þetta allt í lagi. Nánast hvar sem þú ert í heiminum. Þetta er milljónasamfélag og allt til alls þarna. Yfir engu að kvarta.“

Einbeitir sér að núinu

Rússneska deildin er í jólafríi. Hún hefst aftur í byrjun mars og á Sölvi að vera mættur út til skyldustarfa nú í lok janúar. Þá hefst annað undirbúningstímabil þar sem farið verður til Dúbai, Grikklands og Tyrklands, alls í einn og hálfan mánuð. Ural er sem stendur í fallsæti en þjálfarinn gaf það út í rússneskum fjölmiðlum milli jóla og nýárs að liðið yrði styrkt, peningarnir væru til og verið væri að semja við tvo nýja menn. Spartak Gogniyev, sem er markahæstur í Ural-liðinu, og Sölvi eru í sömu miðlum sagðir verða áfram.

Sölvi er 29 ára og segir að hann ætli sér að koma fyrr heim en hann áætlaði áður. Enda er ekkert grín að vera frá fjölskyldu og vinum. Hvað þá 4265 kílómetra í burtu. Hann er með nokkur járn í eldinum, hvað hann muni gera eftir að ferlinum lýkur en ætlar ekki að gefa það upp að svo stöddu. „Ég er kominn með einhverjar hugmyndir. Ég er bara að einbeita mér að núinu og fótboltanum núna. Ég tek kannski nokkur ár í viðbót en ætla að koma fyrr heim en ég gerði ráð fyrir. Það er bara vegna þess að fjölskyldan er komin til Íslands og ég ætla ekkert að vera frá henni í tvö til þrjú ár. Það er fínt að koma til Íslands og geta eitthvað í fótboltanum ennþá.“

Lesa má viðtalið í heild við Sölva í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Sölvi Geir Ottesen skallaði FCK inn í Meistaradeildina tímabilið 2010-2011. …
Sölvi Geir Ottesen skallaði FCK inn í Meistaradeildina tímabilið 2010-2011. Mark sem tryggði FCK fjölmargar milljónir og milljarða. AFP
Sölvi Geir Ottesen með Ural-treyjuna.
Sölvi Geir Ottesen með Ural-treyjuna. Ljósmynd/Facebook
Sölvi Geir Ottesen í baráttunni með liði sínu FC Ural.
Sölvi Geir Ottesen í baráttunni með liði sínu FC Ural. Ljósmynd/fc-ural.ru
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert