Stjarnan vann fyrsta titilinn árið 1989

Stjörnumenn byrjuðu tímabilið vel.
Stjörnumenn byrjuðu tímabilið vel. mbl.is/Golli

Stjörnumenn unnu ekki sinn fyrsta titil í meistaraflokki karla í fótbolta í fyrrakvöld, eins og sagt var í blaðinu í gær og í fleiri fjölmiðlum eftir sigur þeirra á FH, 3:1, í úrslitaleik Fótbolta.net-mótsins.

Fyrir 25 árum, vorið 1989, vann Stjarnan nefnilega Litlu bikarkeppnina, sem var vormót liðanna utan Reykjavíkur og nánast nákvæmlega sama mót og með sama fyrirkomulagi og Fótbolta.net-mótið er í dag. Þar léku átta lið úr tveimur efstu deildunum í tveimur riðlum og sigurvegararnir spiluðu til úrslita.

Stjarnan vann þá Víði, 2:1, í úrslitaleik á Garðsvelli 13. maí, rúmri viku áður en Íslandsmótið hófst. Bjarni Benediktsson, núverandi fjármálaráðherra, og Heimir Erlingsson skoruðu fyrir Stjörnuna, eftir sendingar frá Skagamönnunum reyndu Árna Sveinssyni og Sveinbirni Hákonarsyni, en Hlynur Jóhannsson svaraði fyrir Víði.

Stjarnan lék þetta ár í fyrsta sinn í næstefstu deild, og fór beint uppí efstu deild um haustið, einmitt eftir harðan slag við Víðismenn og Eyjamenn um tvö efstu sætin. Stjörnuliðið hafnaði síðan í 5. sætinu árið 1990, í frumraun sinni þar. Sigur Garðabæjarliðsins vorið 1989 kom skemmtilega á óvart en ÍA og Keflavík höfðu fram að því nánast einokað þessa keppni sem var haldin í um það bil þrjá áratugi og var lögð af þegar deildabikar KSÍ var stofnaður árið 1996. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert