Jóhann til Ull/Kisa: Kominn tími á þetta skref

Jóhann Laxdal á landsliðsæfingu.
Jóhann Laxdal á landsliðsæfingu. mbl.is/Eggert

Knattspyrnukappinn Jóhann Laxdal er búinn að semja við norska 1. deildarfélagið Ullensaker/Kisa til næstu tveggja ára en hann gengur í raðir þess frá uppeldisfélagi sínu Stjörnunni. Ullensaker/Kisa varð í 12. sæti í norsku 1. deildinni á síðustu leiktíð.

„Þetta kom bara upp allt í einu núna í miðri vikunni og var fljótt að gerast. Þjálfarinn vildi bara fá mig strax og það er gott að vita af því,“ sagði Jóhann en frá lokum síðustu leiktíðar hefur hann unnið að því að komast utan í atvinnumennsku.

„Það var kominn tími á að taka þetta skref út. Þá get ég einbeitt mér að því að vera bara í fótbolta og prófa þetta umhverfi,“ sagði Jóhann.

Jóhann er 24 ára gamall og á að baki 1 A-landsleik en hefur verið viðloðandi landsliðið að undanförnu. Hann hefur verið lykilmaður í liði Stjörnunnar í Pepsideildinni undanfarin ár.

Nánar er rætt við bakvörðinn knáa í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert