Moyes: Rio mikilvægur liðinu

Rio Ferdinand hefur lítið komið við sögu undanfarið.
Rio Ferdinand hefur lítið komið við sögu undanfarið. AFP

David Moyes, knattspyrnustjóri Manchester United, segir miðvörðinn Rio Ferdinand enn mikilvægan liðinu þrátt fyrir að hann hafi fengið lítið að spila undanfarnar vikur.

Ferdinand hefur aðeins spilað 13 leiki á tímabilinu og ekki komið við sögu í nema tveimur leikjum síðan í nóvember en hann hefur einnig glímt við erfið meiðsli í hné.

Jonny Evans og Phil Jones, sem byrjuðu í miðvarðarstöðunum hjá United í tapinu gegn Stoke um helgina, þurftu báðir að fara af velli vegna meiðsla þannig Moyes gæti þurft að treysta á hinn 35 ára gamla Ferdinand gegn Fulham í næstu umferð.

„Rio er byrjaður að æfa aftur og við munum halda áfram að nota hann á réttum tímapunktum. Rio hefur lagt sitt af mörkum á tímabilinu og rúmlega það á fyrri hluta leiktíðarinnar. Ég notaði hann nánast í hverjum einasta leik í fyrstu 8-10 leikjum tímabilsins,“ segir Moyes.

„Hann hjálpaði mér að koma mér fyrir hjá félaginu. Það er vissulega samkeppni um miðvarðarstöðurnar núna en við kunnum að meta það sem Rio hefur fram að færa og við lítum á hann sem einn af okkar aðalleikmönnum,“ segir David Moyes.

Nemanja Vidic verður einnig klár í slaginn um helgina en hann kláraði að taka út þriggja leikja bann sitt um helgina.

mbl.is