Segir Liverpool hafa átt að vera fyrr á ferðinni

Yevhen Konoplyanka er enn leikmaður Dnipro.
Yevhen Konoplyanka er enn leikmaður Dnipro. AFP

Andriy Rusol framkvæmdastjóri úkraínska knattspyrnufélagsins Dnipro segir að Liverpool hefði þurft að vera fyrr á ferðinni til að ganga frá kaupum á kantmanninum Yevhen Konoplyanka áður en félagaskiptaglugginn lokaðist um mánaðamótin.

Liverpool-menn reyndu að ganga frá kaupunum allt fram á síðustu stundu á föstudagskvöld en höfðu ekki erindi sem erfiði. Brendan Rodgers stjóri liðsins sagði kaupverðið ekki hafa verið vandamál og að reynt yrði aftur að fá Konoplyanka í sumar. Rusol er viss um það.

„Ég er 1000% viss um það að Liverpool mun reyna aftur næsta sumar og þá fær hann að fara. Þetta var ekki spurning um peninga, Liverpool kom bara of seint,“ sagði Rusol við úkraínska fjölmiðla.

„Í sumar verður allt í lagi. Ef Liverpool hefur samband þá leyfum við Yevhen að fara til þeirra,“ bætti Rusol við og þvertók fyrir að forseti félagsins, Igor Kolomoisky, hefði komið í veg fyrir að kaupin gengju í gegn.

„Igor Kolomoisky samþykkti kaupin strax. Þetta er ekki okkur að kenna. Fulltrúar Liverpool hefðu getað mætt einum eða tveimur dögum fyrr,“ sagði Rusol.

mbl.is