Anelka fékk fimm leikja bann

Nicolas Anelka fagnaði með þessum hætti í leiknum gegn West …
Nicolas Anelka fagnaði með þessum hætti í leiknum gegn West Ham og missir væntanlega af fimm leikjum með WBA vegna þess. AFP

Enska knattspyrnusambandið úrskurðaði Nicolas Anelka í dag í fimm leikja bann vegna látbragðs síns eftir að hann skoraði mark gegn West Ham hinn 28. desember. Anelka fékk einnig 80.000 punda sekt og var skikkaður til að setjast á skólabekk.

Anelka fagnaði markinu sínu með því að rétta hægri handlegg út og beina honum niður, og leggja vinstri hönd ofan á hann. Kveðjan er af mörgum talin niðrandi í garð gyðinga en segja má að hún sé eins og öfug nasistakveðja.

Anelka segist einungis hafa verið að sýna vini sínum, franska grínistanum Dieudonne M'Bala M'Bala, stuðning en það var hann sem gerði kveðjuna vinsæla á sínum tíma.

Auk þess að missa af fimm leikjum með WBA og þurfa að greiða 80.000 punda sekt þarf Anelka að sækja sérstakt námskeið. Í tilkynningu enska knattspyrnusambandsins segir að efni námskeiðsins verði kynnt honum í sérstöku bréfi.

Franski framherjinn hefur rétt á að áfrýja ákvörðun enska knattspyrnusambandsins innan sjö daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert