Félagaskipti Lee Hendrie fölsuð

Lee Hendrie gerði garðinn frægann með Aston Villa.
Lee Hendrie gerði garðinn frægann með Aston Villa. AP

Lee Hendrie átti í lok síðustu aldar að vera ein af vonarstjörnum enska boltans. Hann gerði garðinn frægan með Aston Villa og var meðal annars valinn í enska landsliðið þar sem hann lék sinn fyrsta og eina leik árið 1998 þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Tékklandi.

Hendrie lék svo fyrir Stoke, Sheffield United, Derby og Bradford og þrátt fyrir að vera orðinn 36 ára er hann enn að spila. Eftir að hafa orðið gjaldþrota fyrir nokkrum árum hefur hann spilað með ýmsum liðum í neðri deildum Englands, nú síðast með Basford United.

Hins vegar barst framkvæmdastjóra Suðvestur Peninsula neðrideildarinnar í Englandi beiðni um félagaskipti Lee Hendrie yfir til liðsins Tavistock sem leikur í deildinni. Beiðnin um að félagaskiptin yrðu afgreidd barst á lokadegi félagaskiptaglugga deildarinnar, 31. mars og eftir að framkvæmdastjórinn hafði yfirfarið umsóknina var hún afgreidd, en þar með var málinu ekki lokið. Lee Hendrie hafði ekki hugmynd um þetta og hafði engin plön um að ganga í raðir Tavistock eða leika með liðinu.

„Þetta er algjörlega fáranlegt. Ég fæ ekki skilið hvaðan þessi samningur og undirskrift kemur,“ segir Lee Hendrie í viðtali við BBC um málið.

Einhverjir leikmenn úr liði Tavistock hittu Hendrie á einhvers konar firmamóti í mars. „Þeir spurðu mig hvort ég myndi ekki ganga til liðs við þá ef þeir sendu eftir mér þyrlu. Þetta var bara einhver fíflagangur og við hlógum. En núna gætu þessir menn hafa komið mér í vandræði, því ég hef aldrei undirritað neinn samning við þetta lið eða skrifað undir eitt né neitt. Það eina sem mér dettur í hug er að þar sem ég gaf einhverjir eiginhandaráritanir á þessu móti eins og fleiri fyrrverandi atvinnumenn sem þarna voru, að ein af þessum áritunum hafi verið notuð við þessar falsanir í kjölfarið,“ segir Lee Hendrie sem segir að þetta sé það eina sem honum dettur í hug að geti útskýrt málið.

Samningur með undirskrift Lee Hendrie barst á skrifstofu Suðvestur Peninsula neðrideildarinnar 31. mars með faxi. 

„Við höfum 52 félög í deildinni okkar og ansi mörg félagaskipti sem ganga í gegn á lokadegi félagaskiptagluggans þegar svona stutt er eftir af leiktíðinni,“ sagði framkvæmdastjóri deildarinnar, Phil Hiscox.

„Af þeim samningum sem komu með faxi voru nokkrir frá Tavistock, meðal annars samningur við Lee Hendrie þar sem heimilisfang og fæðingadagur passaði við Lee Hendrie sem spilaði fyrir Aston Villa og enska landsliðið. Félagaskiptin fóru svo bara eðlilega í gegn,“ sagði Hiscox við BBC.

Hiscox hafði heyrt slúðrað um hugsanleg félagaskipti Hendrie til Tavistock en trúði því þó mátulega fyrr en beiðnin barst á mánudag. „En þetta er allt svo óþroskað og barnalegt ef félagið lætur líta út fyrir að leikmaður sé búinn að semja við liðið þegar raunin er sú að hann hafði aldrei nein plön um það,“ sagði Hiscox.

Chris Fenner stjórnarformaður Tavistock sagði að félagið hefði hafið rannsókn á því af hverju gengið var frá félagaskiptum Lee Hendrie og hvernig þau komu til.

Lee Hendrie hefur leikið með Basford United í vetur, en Basford situr í 3. sæti Northern Counties East League úrvalsdeildarinnar í neðrideildum Englands.„Hugsið ykkur ef ég er orðinn ólöglegur núna með Basford út af þessu rugli. Við erum að reyna að komast upp um deild og nálægt því markmiði. Þannig ef liðið missir einhver stig þá verð ég algjörlega brjálaður,“ sagði Lee Hendrie um þetta furðulega falsaramál.

Samningurinn um félagaskipti Lee Hendrie til Tavistock sem var falsaður.
Samningurinn um félagaskipti Lee Hendrie til Tavistock sem var falsaður. Ljósmynd/Phil Hiscox
Lee Hendrie í leik með Aston Villa í janúar 2004 …
Lee Hendrie í leik með Aston Villa í janúar 2004 í baráttu við Thierry Henry hjá Arsenal. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert