Manchester City bannað að kaupa leikmenn?

Manchester City er með dýran leikmannahóp.
Manchester City er með dýran leikmannahóp. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester City gæti átt yfir höfði sér refsingu frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, þegar nefnd sambandsins um fjárhagslega háttvísi (Financial Fair Play) kemur saman í vikunni.

The Telegraph sagði í netútgáfu sinni í kvöld að samkvæmt sínum heimildum verði forráðamenn City fundnir sekir um að brjóta reglur UEFA, nema félagið nái að leggja fram einhver ný gögn á allra síðustu stundu.

Refsingin gæti orðið brottrekstur úr Meistaradeild Evrópu, mjög há fjársekt eða að félaginu yrði bannað að kaupa leikmenn næstu eitt til tvö árin. Talið sé afar ólíklegt að um brottrekstur úr Meistaradeildinni verði að ræða.

Manchester City tapaði samtals 149 milljónum punda á rekstri sínum frá 2011 til 2013, fyrst og fremst vegna kaupa á fjölda dýrra leikmanna. Þau innkaup hefur eigandi félagsins, arabíski milljarðamæringurinn Sheikh Mansour bin Zayed al Nahyan, fjármagnað.

Tengsl City við Etihad-flugfélagið í Abu Dhabi munu vera sérstaklega til rannsóknar. City gerði 350 milljón punda samning við Etihad en reglur FFP um samninga og samskipti við fyrirtæki sem tengjast eigendum viðkomandi félaga eru mjög strangar.

Franska félagið París SG er í sömu sporum. Það er eins og City í eigu forríkra arabískra auðkýfinga sem hafa eytt gífurlega háum fjárhæðum í leikmenn. Talið er að um 20 félög séu sérstaklega undir smásjá nefndarinnar en þessi tvö séu efst á listanum og líklegust til að verða refsað.

Þó nefndin komi saman í vikunni ætlar UEFA ekki að gefa neitt út um refsingarnar fyrr en í byrjun maí en úrskurði sambandsins verður aðeins hægt að áfrýja til Alþjóða íþróttadómstólsins.

mbl.is