Eitt mark í 63 markskotum

Mario Balotelli vonsvikinn eftir að markskot hefur geigað.
Mario Balotelli vonsvikinn eftir að markskot hefur geigað. AFP

Mario Balotelli hefur ekki verið fundvís á netmöskvana enn sem komið er eftir að hann gekk til liðs við Liverpool en þessi öflugi sóknarmaður á enn eftir að skora fyrir liðið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir fjóra leiki með því þar.

Balotelli er hinsvegar óhræddur við að skjóta á markið. Hann átti 10 markskot í leiknum gegn Everton, einu færra en allt lið andstæðinganna, en það dugði ekki. Ekkert þeirra rataði í netið og leikurinn endaði 1:1.

Sky Sports hefur nú birt samantekt á markskotum Balotellis og þar kemur í ljós að úr 63 síðustu skotum hans að marki í ensku úrvalsdeildinni, í 20 leikjum með Liverpool og Manchester City, hefur hann aðeins náð að skora eitt mark. Það kom í leik gegn Wigan í nóvember 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert