Lovren gert flest mistök

Dejan Lovren kom til Liverpool frá Southampton í sumar.
Dejan Lovren kom til Liverpool frá Southampton í sumar. AFP

Miðvörðurinn Dejan Lovren, sem kom til Liverpool frá Southampton í sumar, hefur gert sig sekan um fleiri varnarmistök en nokkur annar leikmaður í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Samkvæmt tölfræðivefnum Squawka.com hefur Lovren fjórum sinnum gert sig sekan um einstaklingsmistök í vörn Liverpool en ekkert skiptanna hefur þó leitt til marks. Samherji hans, Alberto Moreno, hefur gert þrenn varnarmistök, samkvæmt skilgreiningu Squawka, og í tvö skiptanna hefur það kostað mark. Þriðji varnarmaðurinn úr röðum Liverpool, Martin Skrtel, hefur einnig gert sig sekan um þrenn varnarmistök.

Athygli vekur að enginn leikmanna Southampton, gamla liðsins hans Lovrens, hefur gert sig sekan um varnarmistök til þessa. Raunar hefur Southampton aðeins fengið á sig 5 mörk í 11 leikjum, mun færri en nokkurt hinna liðanna í deildinni.

mbl.is