Lucas ekki á lausu

Lucas Leiva miðjumaður Liverpool.
Lucas Leiva miðjumaður Liverpool. AFP

Brasilíski miðjumaðurinn Lucas, sem leikur með Liverpool, er ekki á förum frá félaginu, samkvæmt frétt í Liverpool Echo í kvöld.

Lucas hefur verið talsvert orðaður við Inter Mílanó að undanförnu, og þá að Ítalirnir fengju hann lánaðan frá Liverpool til vorsins, eða keyptu hann.

Liverpool Echo segir að ekkert tilboð hafi komið frá Inter í leikmanninn og jafnvel þó það kæmi sé lítill áhugi fyrir því að selja hann. Þá komi alls ekki til greina að hann yrði lánaður.

Eftir sigur Liverpool á Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í gær skrifaði Lucas á Twitter: „Frábær sigur, takk fyrir allt.“ Einhverjir veltu þessum skilaboðum fyrir sér og hvort hann væri með þeim að gefa í skyn að hann væri á förum. 

Lucas, sem varð 28 ára á föstudaginn, hefur leikið með Liverpool frá árinu 2007 en þá kom hann til félagsins frá Gremio í heimalandi sínu.

mbl.is