Shaqiri á leið til Stoke

Xherdan Shaqiri er á leið til Stoke samkvæmt fréttum frá …
Xherdan Shaqiri er á leið til Stoke samkvæmt fréttum frá Ítalíu. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Stoke City er búið að komast að samkomulagi við Internazionale um kaup á svissneska landsliðsmanninum, Xherdan Shaqiri, en það er hinn afar virti íþróttafréttamaður, Gianluca Di Marzio, sem greinir frá þessu í dag.

Shaqiri, sem er 23 ára gamall vængmaður, gekk til liðs við Inter frá Bayern í janúar, en þá gerði hann fjögurra og hálfs árs samning við félagið.

Liverpool og Stoke City voru meðal þeirra liða sem vildu fá hann í janúar, en Inter vann kapphlaupið á endanum. 

Nú hálfu ári síðar virðist Shaqiri vera á leið til Stoke ef marka má frétt íþróttafréttamannsins, Gianluca Di Marzio, en hann segir Stoke þegar búið að ná samkomulagi við Inter um kaup á leikmanninum.

Það verður áhugavert að fylgjast með þessum skiptum, en Shaqiri er gríðarlega öflugur leikmaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert