Eva læknir búin að fá nóg hjá Chelsea

Eva Carneiro og José Mourinho.
Eva Carneiro og José Mourinho. AFP

Eva Carneiro, læknir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, hefur sagt skilið við félagið og kemur það í kjölfar þess að allt fór í háaloft á milli hennar og knattspyrnustjórans Jose Mourinho í upphafi tímabils. Hún er einnig að athuga réttarstöðu sína gagnvart félaginu.

Enska knattspyrnusambandinu barst kvörtun þess efnis að Mourinho hefði látið falla niðrandi, kynbundin orð í garð Carneiro eftir að hún hljóp inn á völlinn til að hlúa að Eden Hazard í leik gegn Swansea í fyrstu umferð deildarinnar. Mourinho var afar óánægður með það að Carnerio skyldi fara inn á völlinn, því samkvæmt reglum varð Hazard þá að fara af velli í stutta stund. Carneiro hefur ekki starfað á leikjum Chelsea síðan þetta gerðist.

Samkvæmt frétt The Independent um málið gæti Mourinho fengið fimm leikja bann verði hann fundinn sekur. Knattspyrnusambandið er meðal annars með myndbandsupptökur til skoðunar í málinu, en óvíst er hvernig fer með kæru hennar gegn félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert