Leikur Liverpool er hægur og fyrirsjáanlegur

Jamie Carragher segir samsetninguna á leikmannahópi Liverpool furðulega.
Jamie Carragher segir samsetninguna á leikmannahópi Liverpool furðulega. AFP

Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og núverandi sparkspekingur á sjónvarpsstöðinni Sky Sports, segir að það vanti allt jafnvægi í leikmannahóp Liverpool. Hann bætti því við að Jürgen Klopp muni kannski reyna að laga það vandamál með því að kaupa leikmenn í janúar.

„Liðið skapar ekki nógu mörg færi. Knattspyrnan sem Liverpool leikur er ekki hröð og kraftmikil, heldur er hún hæg og fyrirsjáanleg enda nær liðið varla að skapa sér eitt færi,“ sagði Carragher eftir leikinn í dag.

Carragher var ekki ánægður í leikhléi en þá sagði að hann að leikmenn Liverpool spiluðu eins og kórdrengir; það væru engin læti í liðinu.

Að leik loknum benti hann á ójafnvægið í leikmannahópnum. „Það eru engir kantmenn í hópnum en það er fullt af leikmönnum sem geta leikið í „holunni.“ Ég veit ekki alveg hvernig þeir sem sáu um félagaskiptin ætluðu að koma öllum þessum leikmönnum fyrir.“

Carragher bætti við að núna væri þetta vandamál sem Klopp þyrfti að leysa. „Kannski mun hann reyna að leysa þetta strax í janúar. Það er ekkert jafnvægi í hópnum og það vantar einnig betri leikmenn í ákveðnar stöður.“

mbl.is