„Djöfullinn“ með leikmönnum á Anfield

Hér sést Stephen French á leiknum á Anfield í gær, …
Hér sést Stephen French á leiknum á Anfield í gær, við hlið Mamadou Sakho. Ljósmynd/Sky Sports

Það vakti skiljanlega furðu margra að sjá harðsvíraðan glæpamann sitja við hlið hluta leikmanna Liverpool á Anfield í gærkvöld þegar liðið vann Bournemouth í enska deildabikarnum.

Um var að ræða Stephen French, sem er þekktur fyrrverandi glæpamaður í Liverpool-borg. French var á síðasta áratug síðustu aldar talinn einn af hættulegustu mönnum Englands, og hlaut viðurnefnið „Djöfullinn“ vegna þess hve harðsvíraður hann var gagnvart dópsölum og öðrum starfsbræðrum sínum í undirheimum Liverpool.

French var síðast dæmdur til fangelsisvistar árið 2013 fyrir að slá mann með loftbyssu, en hann hafði áður haldið því fram að glæpaferlinum væri lokið og að hann væri orðinn breyttur maður.

Í gærkvöld sat French hins vegar í VIP-stúkunni á Anfield, við hlið leikmannanna Mamadou Sakho, Christian Benteke og Emre Can, og fylgdist með leiknum við Bournemouth eins og ekkert væri eðlilegra. Engin sérstök skýring hefur birst á þessu. Myndir af French og leikmönnunum sáust í sjónvarpinu og fjöldi stuðningsmanna Liverpool furðaði sig skiljanlega á þessu öllu saman:

„Fjórtán ára gamall sonur minn er á leiknum. Og þarna situr Stephen French sem hefur sagt að að minnsta kosti hálf tylft manna vilji sig feigan. Hvað ef einhver reynir að skjóta hann þarna? Mér finnst viðbjóðslegt að hann sé þarna. Einhver ætti að láta [Jürgen] Klopp vita,“ sagði einn þeirra við Liverpool Echo, en vildi ekki láta nafn síns getið. Tíst frá fleiri stuðningsmönnum Liverpool má sjá hér að neðan.

mbl.is