Meira meiðslavesen hjá Liverpool

Liverpool hefur misst tvo leikmenn meidda af velli í fyrri hálfleiknum gegn Stoke City en fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu stendur nú yfir á Britannia í Stoke. Liverpool er með forystu, 1:0.

Philippe Coutinho fór meiddur af velli strax á 18. mínútu og miðvörðurinn Dejan Lovren fór sömu leið á 32. mínútu. Jordon Ibe, sem kom inná fyrir Couthino, skoraði hinsvegar eina mark fyrri hálfleiks á 37. mínútu.

Bæði Coutinho og Lovren virtust togna aftan í læri og þar með má búast við því að þeir spili lítið eða ekkert það sem eftir lifir janúarmánaðar. Liverpool á þétt leikjaprógramm framundan en liðið á eftir fimm leiki til viðbótar í janúar, sex ef það kemst áfram í ensku bikarkeppninni. Framundan eru m.a. leikir við Arsenal og Manchester United í úrvalsdeildinni en þeir fara fram 13. og 17. janúar.

Það mun vera hægt að stilla upp heilu liði af meiddum Liverpool-mönnum eins og sjá má hér fyrir neðan:

mbl.is