Varpar skugga á sigurinn

Jürgen Klopp kallar á sína menn í leiknum í kvöld ...
Jürgen Klopp kallar á sína menn í leiknum í kvöld en Mark Hughes kollegi hans hjá Stoke er öllu rólegri. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool var ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld þegar þeir unnu Stoke 1:0 á útivelli í fyrri undanúrslitaleik liðanna í enska deildabikarnum.

Hann var hinsvegar að vonum ekki kátur með að missa sterka menn í meiðsli en Philippe Coutinho og Dejan Lovren fóru báðir af velli í fyrri hálfleik, tognaðir aftan í læri, og Kolo Touré haltraði síðustu mínúturnar og hélt um annað lærið.

„Meiðslin varpa stórum skugga yfir þennan sigur okkar. Ég veit ekki hversu alvarleg þau eru og við verðum að bíða eftir niðurstöðum. 

1:0 er engin forysta í svona einvígi en ég er samt stoltur - eftir að hafa verið reiður fyrir nokkrum dögum," sagði Klopp við fréttamenn og vísaði þar til ósigursins gegn West Ham á laugardaginn.

Hann kvaðst bjartsýnn á að Touré hefði aðeins fengið krampa og sloppið við tognun. Hann staðfesti að Mamadou Sakho yrði ekki klár fyrir bikarleikinn gegn Exeter á föstudagskvöldið og sú staða gæti verið uppi að hann ætti engan miðvörð heilan í þann leik.

„Þegar staðan er svona og engir miðverðir til staðar, verðum við mögulega að huga að því að kaupa varnarmann," sagði Klopp ennfremur.

„Það eina sem ég get sett útá okkar leik er nýtingin á færunum. Heildarmyndin hjá okkur var góð, við spiluðum vel, allt gekk upp en við skorum ekki nóg af mörkum. Stærsta vandamálið er að við misstum tvo, jafnvel þrjá menn í meiðsli, enn og aftur. Það er mjög svekkjandi. Vandamálið er að við erum með alltof mikið af meiðslum. Þegar einhverjir eru orðnir heilir meiðast aðrir í staðinn. Þetta er hringrás sem við verðum að brjóta okkur útúr. Það er engin hvíld, engin endurheimt. Leikmenn sem aldrei eru í vandræðum sleppa en hjá öðrum er þetta upp og ofan," sagði Jürgen Klopp.

mbl.is