Arsenal að kaupa félaga Birkis

Mohamed Elneny, til hægri, í leik með Basel gegn Fiorentina …
Mohamed Elneny, til hægri, í leik með Basel gegn Fiorentina í Evrópudeild UEFA í vetur. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnuliðsins Arsenal eru farnir til Basel í Sviss til að ganga þar endanlega frá kaupum á liðsfélaga Birkis Bjarnasonar, egypska miðjumanninum Mohamed Elneny.

Hann hefur verið lengi í sigtinu hjá Arsenal og fyrr í vikunni var ljóst að Egyptinn væri á leið til Lundúnaliðsins, eftir skýrar vísbendingar um það frá bæði Arsenal og Basel.

ESPN segir að viðræður hafi verið í gangi undanfarnar vikur, Elneny hafi þegar gengist undir læknisskoðun hjá Arsenal og aðeins sé eftir að fá á hreint alþjóðlegu félagaskiptin og atvinnuleyfi á Bretlandseyjum.

Elneny er öflugur varnartengiliður, 23 ára gamall, og hefur spilað 91 deildaleik fyrir Basel frá því hann kom til félagsins fyrir þremur árum. Þá á hann að baki 39 landsleiki fyrir Egyptaland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert