Hafnar því að sökin sé hjá Klopp

Adam Lallana ræðir við Jürgen Klopp fyrir leikinn gegn Stoke …
Adam Lallana ræðir við Jürgen Klopp fyrir leikinn gegn Stoke í gærkvöld. AFP

Adam Lallana, leikmaður Liverpool, hafnar skýringum Graeme Souness, fyrrverandi fyrirliða og síðar knattspyrnustjóra  félagsins, sem segir að meiðslafaraldur liðsins sé Jürgen Klopp að kenna.

Souness sagði eftir sigurinn á Stoke í gærkvöld, þar sem þrír leikmenn Liverpool meiddust og þeir Philippe Coutinho og Dejan Lovren tognuðu báðir aftan í læri, að mikilli hápressu sem Klopp beitir í leikjunum væri um að kenna. Leikmenn þyldu hreinlega ekki álagið sem því fylgdi.

„Við skiptum um stjóra í vetur og þegar slíkt gerist leggja leikmennirnir meira á sig, vilja sýna sig og sanna og gefa meira af sér. En ég held að þessi meiðsli hafi ekki neitt að gera með breyttar áherslur í okkar æfingum," sagði Lallana við Sky Sports.

„Við höfum spilað svo þétt að undanförnu að við höfum fyrst og fremst verið í „endurheimt“ á milli leikja. Það er því ekki hægt að segja að æfingaálagið hafi verið mikið. Því er ekki um að kenna. Stundum eru menn einfaldlega óheppnir hvað meiðsli varðar og við höfum verið afar óheppnir upp á síðkastið.

Ég hef kynnst því hjá Liverpool að við erum með heimsklassa læknateymi og getum ekki sakað neinn um neitt. Það var mikið áfall að missa Philippe og Dejan og við vonum bara að þeir verði ekki lengi frá keppni," sagði Lallana.

Liverpool mætir Exeter á útivelli á föstudagskvöldið í 3. umferð ensku bikarkeppninnar og það  verður fimmti leikur liðsins á fjórtán dögum. „Álagið er mikið og því fylgja óhjákvæmilega meiðsli. Ef við skoðum hin liðin í deildinni þá er alls staðar aukning á meiðslum. Svo eru ekki öll liðin komin í undanúrslit í deildabikarnum, með í Evrópudeildinni og á leið í bikarleik á föstudagskvöldi. En við stöndum þétt saman og ég veit að þeir sem eru meiddir leggja geysilega hart að sér til að komast inná  völlinn á ný," sagði Lallana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert