Lukaku vill verða bestur í heiminum

Lukaku meiddist og haltraði meiddur af velli eftir að hafa ...
Lukaku meiddist og haltraði meiddur af velli eftir að hafa skorað sigurmark Everton gegn Manchester City í kvöld. AFP

Knattspyrnustjóri Everton, Roberto Martínez, var öllu kátari en kollegi hans hjá City eftir 2:1 sigur Everton á Manchester City í undanúrslitum deildabikarsins í kvöld. Einvígið er þó aðeins hálfnað en liðin mætast aftur eftir þrjár vikur í Manchester.

„Stuðningurinn í kvöld var frábær og strákarnir sýndu góðan karakter. Við urðum að bregðast við því að missa Tom Cleverley og Lukaku meidda af velli og gerðum það svo sannarlega,“ sagði Martínez eftir leikinn en heimamenn enduðu leikinn manni færri vegna þess að þegar Cleverley haltraði af velli voru þeir búnir með sínar skiptingar í leiknum.

„Við brugðumst frábærlega við þegar þeir jöfnuðu leikinn,“ bætti Martínez við en hans menn voru ekki lengi að sleikja sárin eftir jöfnunarmark gestanna. Lukaku skoraði sigurmark Everton tveimur mínútum eftir að Jesús Navas jafnaði.

„Þetta þýðir samt ekkert. Við erum búnir að klára fyrri leikinn en við urðum líka að vinna hann. Núna búum við okkur undir erfiðan síðari leik,“ sagði Martínez og hrósaði Lukaku eftir leikinn en sóknarmaðurinn hefur verið óstöðvandi síðustu vikur.

„Tölfræðin sýnir hversu góður hann er. Frá okkar sjónarhorni hefur hann alltaf verið hinn fullkomni sóknarmaður fyrir Everton. Hann er ungur og vill verða bestur í heiminum.“

mbl.is