Meiðslin eru Klopp að kenna

Philippe Coutinho gengur svekktur af velli eftir 18 mínútur í …
Philippe Coutinho gengur svekktur af velli eftir 18 mínútur í leiknum við Stoke í gærkvöld. AFP

Graeme Souness, fyrrverandi fyrirliði og síðar knattspyrnustjóri Liverpool, segir að meiðslin hjá Liverpool um þessar mundir séu engin tilviljun og þau megi að mestu leyti skrifa á Jürgen Klopp og leikaðferð hans.

Þeir Philippe Coutinho og Dejan Lovren fóru báðir af velli, tognaðir aftan í læri, í fyrri hálfleiknum þegar Liverpool vann Stoke 1:0 á útivelli í fyrri undanúrslitaleik liðanna í deildabikarnum í gærkvöld. Kolo Touré fékk krampa aftan í læri undir lokin en lauk leiknum. Þar með eru einir ellefu leikmenn Liverpool nú fjarverandi vegna meiðsla og Souness er ekki í vafa um ástæðuna.

„Það tekur yfirleitt um ellefu leiki að komast í fulla leikæfingu. Sumir ná því á þremur til fjórum leikjum, aðrir þurfa átta til níu, en sá sem nær að spila ellefu leiki er kominn í fullt leikform. Nýr stjóri tók við liðinu og þá snerist allt í einu allt um að spila hápressu framarlega á vellinum. Það er gífurleg vinna að framkvæma það í 90 mínútur. Það er hægt að gera það í skömmtum. Það er hægt að pressa svona í klukkutíma, eða 70 mínútur, en að gera það í 90 mínútur er gífurlegt álag á fæturna," sagði Souness á Sky Sports eftir leikinn en þar starfar hann sem sérfræðingur.

„Ég held að þetta sé skýringin. Það er engin tilviljun að sex leikmenn skuli hafa tognað aftan í læri. Fyrst það gerist allt á sama tíma tel ég að þeir þurfi að endurskoða æfingaaðferðir sínar," sagði Souness.

Þeir Danny Ings og Joe Gomez eru báðir með slitið krossband en Souness sagði að tognun í læri gæti verið næstum því jafn vond. „Allir leikmenn óttast þessi meiðsli. Í fyrsta sæti er slitna krossbandið, en strax í kjölfarið kemur tognunin aftan í læri, því leikmenn vita að slík meiðsli geta hundelt þá lengi. Þú getur æft, fengið góða meðferð, verið með á æfingu og talið þig vera orðinn góðan - en eftir tíu mínútur í alvöru leik fer allt í fyrra horf. Slík meiðsli þurfa tíu daga til sex vikur til að hverfa og sum af þessum munu taka sex vikur," sagði Souness.

Jürgen Klopp tók við starfi knattspyrnustjóra Liverpool 8. október og leysti af hólmi Brendan Rodgers sem var sagt upp störfum.

Samkvæmt tölfræði úrvalsdeildarinnar hlaupa leikmenn Liverpool að jafnaði 113,4 kílómetra í hverjum leik eftir að Klopp tók við liðinu en þeir hlupu 107,8 kílómetra í leik í fyrstu átta umferðunum, undir stjórn Rodgers. Þá taka þeir 548 spretti að meðaltali í leik hjá Klopp en tóku 474 spretti að jafnaði í leik undir stjórn Rodgers.

Auk þeirra Coutinho og Lovren eru Divock Origi, Martin Skrtel, Daniel Sturridge og Jordan Rossiter frá keppni vegna tognunar aftan í læri og ekkert félag í úrvalsdeildinni hefur lent í jafnmörgum slíkum meiðslum í vetur. 

Jürgen Klopp þarf að endurskoða sínar aðferðir, að mati Graeme …
Jürgen Klopp þarf að endurskoða sínar aðferðir, að mati Graeme Souness. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert