Pellegrini pirraður út í dómarann

Pellegrini var pirraður eftir leikinn í kvöld.
Pellegrini var pirraður eftir leikinn í kvöld. AFP

Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, náði varla upp í nefið á sér af reiði eftir 2:1 tap hans manna gegn Everton í kvöld. Þetta var fyrri leikur liðanna í undanúrslitum deildabikarsins.

Pellegrini fullyrti eftir leik að Romelu Lukaku hafi verið rangstæður þegar Mori skoraði fyrra mark Everton í leiknum. Lukaku stóð þá í skotlínunni þegar Gareth Barry skaut að marki en Mori fylgdi skotinu eftir og kom knettinum í netið. 

„Hann var rangstæður og það er ótrúlegt að línuvörðurinn hafi ekki séð það,“ sagði Pellegrini en hann vildi meina að Lukaku hefði með stöðu sinni truflað markvörð City, Willy Caballero.

Hann vildi einnig fá vítaspyrnu í leiknum. Jesús Navas virtist felldur í vítateig Everton um miðjan síðari hálfleikinn en dómari leiksins dæmdi ekkert. „Þetta var augljóst víti. Þarna erum við að tala um tvær lykilákvarðanir. Atvikið með Navas var brot innan teigs og það er auðvitað ekkert annað en vítaspyrna,“ bætti Pellegrini við.

„Þeir skoruðu eitt rangstöðumark og við áttum að fá víti,“ sagði reiður Pellegrini.

mbl.is