Dreymir um að leika með United

Odion Ighalo fagnar marki gegn Tottenham.
Odion Ighalo fagnar marki gegn Tottenham. AFP

Nígeríski knattspyrnumaðurinn Odion Ighalo sem hefur heldur betur slegið í gegn með Watford í ensku úrvalsdeildinni í vetur viðurkennir að sig langi afskaplega mikið til að spila með Manchester United.

Talið er fullvíst að hann spili með Watford út þetta tímabil en eftir það séu allar líkur á að eitthvert stóru félaganna kræki í þennan öfluga markaskorara sem hefur þegar skorað 14 mörk í úrvalsdeildinni í vetur.

„Það hafa verið vangaveltur um lið á Spáni og Ítalíu en ég hef spilað þar og nú vil ég vera á Englandi. Ég býst ekki við að fara neitt í bili en ég er ekki viss um að ég gæti sagt nei ef Manchester United hefði samband. Það var mitt uppáhaldslið í æsku og ég hafði unun af því að horfa á Andy Cole og Dwight Yorke í sjónvarpinu. Þeir voru mínar hetjur og það hefur alltaf verið draumur minn að spila á Old  Trafford,“ sagði Ighalo í viðtali í blaðinu The Sun í dag.

Ighalo er 26 ára og hóf atvinnuferilinn með Lyn í norsku úrvalsdeildinni árið 2007. Hann hefur síðan spilað með Udinese og Cesena á Ítalíu og spænska liðinu Granada. Hann kom til Watford í júlí 2014 og hefur skorað 34 mörk í 55 deildaleikjum með liðinu.

mbl.is