Hræðist ekki komu Guardiola

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, er lítið að velta ...
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, er lítið að velta sér upp úr framtíðaráformum Pep Guardiola. AFP

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, kveðst ekki hræðast komu Pep Guardiola í enska boltann og telur nærveru hans á Englandi ekki ógna starfsöryggi sínu. 

Guardiola tilkynnti það á dögunum að hann hyggist halda til Englands á næsta keppnistímabili og taka við liði í ensku úrvalsdeildinni.

Guardiola lét þess ekki getið hvert liðið væri og vangaveltur hafa verið uppi þess efnis hvort forráðamenn Manchester United fórni Louis van Gaal og láti Guardiola leysa hann af hólmi.  

„Guardiola hefur metnað og vilja til þess að kynnast enski knattspyrnumenningu og ensku úrvalsdeildinni. Það er hið besta mál að hann hafi áhuga á því. Ég er ekki að velta þessum sögusögnum fyrir, það eina sem ég hef í huga er að standa mig vel út samningstímann hjá Manchester United,“ sagði Louis van Gaal á blaðamannafundi í dag. 

Manchester United mætir Sheffield United á heimavelli sínum, Old Trafford, í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar klukkan 17.30 á morgun.

mbl.is