Neyðin kennir nöktum Klopp að spinna

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, þarf að treysta á leikmenn sem …
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, þarf að treysta á leikmenn sem lítið hafa spilað með liðinu í vetur í leiknum gegn Exeter í kvöld. AFP

Knattspyrnustjórar liðanna í ensku úrvalsdeildinni freistast oft til þess að hvíla stórstjörnur sínar í fyrstu stigum ensku bikarkeppninnar og láta minni spámönnum sínum eftir að koma liðinu á seinni stig keppninnar.

Minni spámenn munu reyna að sjá til þess að Liverpool komist áfram í ensku bikarnum í kvöld, en það er þó af illri nauðsyn fremur en að Jürgen Klopp geti leyft sér þann munað að hvíla lykilmenn liðsins. 

Þrettán aðalliðsleikmenn eru á meiðslalistanum hjá Liverpool þegar liðið mætir D-deildarliðinu Exeter í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar á St. James' Park klukkan 19.55 í kvöld. 

Jon Flanagan, Mamadou Sakho, Dejan Lovren, Martin Skrtel, Joe Gomez, Jordan Henderson, Jordan Rossiter, Philippe Coutinho, Daniel Sturridge, Divok Origi, Danny Ings, Kolo Toure og Jordan Ibe verða allir fjarri góðu gamni í leiknum í kvöld. 

Jürgen Klopp kallaði þá Tiago Ilori, Sheyi Ojo, Kevin Stew­art og Ryan Kent til baka úr láni frá félögum sínum í vikunni til þess að bregðast við þeirri flóðbylgju meiðsla sem skollið hefur á Liverpool undanfarið.

„Ég mun gjörbreyta byrjunarliðinu fyrir leikinn gegn Exeter, það eru engir aðrir möguleikar í stöðunni," sagði Klopp á blaðamannfundi í gær.

„Við munum reyna að pússla saman liði, það verður ekki auðvelt en við komumst ekki hjá því að gera það. Ég verð að taka erfiða ákvörðun fyrir félagið, ég neyðist til að breyta til og hvíla leikmenn,“ sagði Klopp enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert