Sjö stjörnur orðaðar við United

Romelu Lukaku er orðaður við Manchester United.
Romelu Lukaku er orðaður við Manchester United. AFP

Ensku dagblöðin keppast í dag við að finna nýja leikmenn fyrir Manchester United og hvorki fleiri né færri en sjö öflugir fótboltamenn eru orðaðir við felagið í dag.

Daily Star segir að forráðamenn United hafi sett saman magnaðan óskalista, sem myndi kosta félagið um 400 milljónir punda. Á honum eru Gareth Bale, Neymar, Cristiano Ronaldo, Harry Kane og Thomas Müller.

The Sun segir hinsvegar að United sé búið að gefa Bale upp á bátinn og hafi snúið athygli sinni að Eden Hazard hjá Chelsea, sem myndi kosta félagið 65 milljónir punda.

Og Daily Mirror segir að United muni gera Everton 40 milljón punda tilboð í sumar í belgíska framherjann Romelu Lukaku, sem hefur verið sjóðandi heitur í vetur, en hann er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni ásamt Jamie Vardy hjá Leicester með 15 mörk.

mbl.is