Jákvætt að fá enn á ný ekki á sig mark

Louis van Gaal á hliðarlínunni í dag.
Louis van Gaal á hliðarlínunni í dag. AFP

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, var fyrst og fremst ánægður með að vera kominn áfram í næstu umferð enska FA-bikarsins en liðið marði sigur á C-deildarliðinu Sheffield United í kvöld. Eina markið kom úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

„Þetta var sanngjörn vítaspyrna og við unnum leikinn sem er það mikilvægasta. Ég sagði við strákana að það eina sem skiptir máli er að við erum komnir áfram. En allir eru að tala um að við getum gert betur en það er enginn að tala um að Sheffield United skapaði sér engin færi. Allir eru að tala um hvað þeir vörðust vel,“ sagði van Gaal við BT Sport eftir leikinn.

„Það er alltaf erfitt að spila á móti svona mótherjum sem verjast með tíu og oft ellefu menn fyrir aftan boltann. Við því þarf að spila hraðari leik en við gerðum í fyrri hálfleik, en við löguðum það eftir hlé. En að halda enn og aftur hreinu er mjög jákvætt,“ sagði van Gaal.

mbl.is