Af hverju að kaupa óþekktan leikmann?

Kanté hefur leikið frábærlega í vetur.
Kanté hefur leikið frábærlega í vetur. AFP

Sparkspekingurinn Thierry Henry telur að stærstu lið ensku úrvalsdeildarinnar hafi ekki reynt að klófesta N’Golo Kanté vegna þess að það hefði ekki glatt stuðningsmenn liðanna. Kanté gekk til liðs við Leicester síðasta sumar og hefur slegið í gegn í úrvalsdeildinni.

Henry telur að ekkert lið muni gera betri kaup í janúarglugganum en Leicester gerði síðasta sumar þegar liðið klófesti Kanté frá franska liðinu Caen. Hann útskýrði síðan hvers vegna það var gott fyrir Kanté að ganga til liðs við Leicester en ekki eitt af „stóru“ liðunum.

„Ein af ástæðunum fyrir því hversu vel Kanté hefur gengið í vetur er sú að hann gekk til liðs við minna lið, án þess að ég tali eitthvað illa um Leicester. Kanté hefur þess vegna ekki þurft að burðast með að hafa verið keyptur á háa upphæð og þurfa að standa undir verðmiðanum,“ sagði Henry og útskýrði síðan hvers vegna Manchester United, Arsenal og Liverpool reyndu ekki að kaupa kappann síðasta sumar.

„Ef eitthvert þessara liða hefði leitað í neðri hluta frönsku deildarinnar eftir leikmanni hefðu stuðningsmennirnir orðið brjálaðir: „Af hverju að kaupa einhvern óþekktan leikmann fyrir 5 milljónir punda?“ Þeir vilja bara kaupa þá bestu, sama hvað þeir kosta,“ bætti Henry við og sagði að það gerði Kanté einnig gott að leika alla leiki, eitthvað sem hann hefði eflaust ekki gert í stærri liðum.

mbl.is