Liverpool reyndi að fá Ödegaard

Martin Ödegaard í leik með Real Madrid.
Martin Ödegaard í leik með Real Madrid. AFP

Spænska stórliðið Real Madrid hafnaði lánstilboði Liverpool í norska undrabarnið, Martin Ödegaard, en Daily Star greinir frá þessu í dag.

Ödegaard, sem er 18 ára gamall, gekk til liðs við Real Madrid frá Strömgodset í janúar á síðasta ári, en hann spilaði síðasta leik liðsins á tímabilinu í 7:3 sigri á Getafe. Hann varð þar með yngsti leikmaðurinn í sögu Real Madrid til að spila keppnisleik.

Hann hefur verið að spila með varaliði Real Madrid á þessari leiktíð, auk þess sem hann æfir með aðalliðinu, en líklegt er að hann verði lánaður í janúar.

Samkvæmt frétt Daily Star þá lagði enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool fram lánstilboð í Ödegaard en Real Madrid hafnaði því.

Ödegaard hefur áður verið orðaður við bæði Glasgow Celtic og Southampton en óljóst er hvert hann fer á lán.

mbl.is