Fyrsti sigur Tottenham á árinu

Leikmenn Tottenham fagna einu af fjórum mörkum sínum í dag.
Leikmenn Tottenham fagna einu af fjórum mörkum sínum í dag. AFP

Tottenham komst á sigurbraut á ný í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar liðið vann öruggan sigur á Sunderland, 4:1, á heimavelli í fyrsta leik dagsins. Þetta var fyrsti sigur liðsins á árinu eftir að hafa tapað síðasta leik og gert jafntefli þar á undan.

Tottenham stjórnaði leiknum en lenti engu að síður undir á 41. mínútu þegar bakvörðurinn Patrick van Aanholt kom Sunderland yfir með fyrsta skoti þeirra á markið. Í næstu sókn jafnaði hins vegar Christian Eriksen metin, staðan 1:1 í hálfleik.

Heimamenn uppskáru svo þrjú mörk í síðari hálfleik sem gulltryggði sigur þeirra. Moussa Dembélé kom Tottenham yfir áður en Eriksen bætti við sínu öðru marki rúmum tuttugu mínútum fyrir leikslok. Harry Kane skoraði svo fjórða markið úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur, lokatölur 4:1.

Tottenham styrkti stöðu sína í fjórða sæti deildarinnar með sigrinum og er nú aðeins einu stigi á eftir Manchester City sem á þó leik til góða núna klukkan 15. Sunderland er hins vegar í þriðja neðsta sæti.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

90. Leik lokið.

79. Mark! Staðan er 4:1. Harry Kane var felldur innan teigs, fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi.

68. Mark! Staðan er 3:1. Er þetta síðasti naglinn í kistu Sunderland? Christian Eriksen lætur vaða utan teigs, boltinn fer af varnarmanni og þaðan í stöngina og inn.

59. Mark! Staðan er 2:1. Danny Rose á skot sem er varið, boltinn berst út á Moussa Dembélé sem keyrir inn á teiginn og leggur boltann snyrtilega í nærhornið.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

45. Hálfleikur.

42. Mark! Staðan er 1:1. Já ekki vantar fjörið núna. Nánast strax eftir að hafa tekið miðju þá jafna heimamenn. Þar er að verki Christian Eriksen eftir að skot Harry Kane var varið. Frákastið barst til Eriksen sem skaut að marki, Lee Cattermole var á línunni en náði ekki að bjarga.

41. Mark! Staðan er 0:1. Eftir að hafa ekki gert neitt í fyrri hálfleiknum þá komast gestirnir yfir. Bakvörðurinn Patrick van Aanholt skorar þá með hnitmiðuðu skoti utarlega í teignum eftir hraða sókn.

35. Stórsókn hjá Tottenham. Þeir voru fimm á tvo en fóru illa að ráði sínu þar sem Erik Lamela skaut framhjá markinu.

25. Tottenham hefur ráðið ferðinni og þeir Harry Kane og Dele Alli báðir átt tilraunir sem fóru rétt framhjá og yfir. Sunderland kemst lítið í boltann en leikmenn þeirra liggja hins vegar þétt til baka og gefa fá færi á sér.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan.

Tottenham: Lloris, Trippier, Alderweireld, Vertonghen, Rose: Dier, Dembele; Lamela, Eriksen, Alli; Kane.

Sunderland: Pickford, Jones, van Aanholt, O’Shea, Brown, Johnson, Lens, Cattermole, M’Vila, Defoe, Graham.

Harry Kane skorar fjórða markið úr vítaspyrnu.
Harry Kane skorar fjórða markið úr vítaspyrnu. AFP
Jan Vertonghen tæklar Jeremain Lens í leiknum í dag.
Jan Vertonghen tæklar Jeremain Lens í leiknum í dag. AFP
mbl.is