Ófagur söngur um Ramsey

Arsené Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að stuðningsmenn Stoke ættu að skammast sín fyrir að baula á Aaron Ramsey í dag og gera lítið úr fótbroti hans. 

Ramsey varð fyrir fólskulegri tæklingu Ryan Shawcross þar sem hann tvífótbrotnaði árið 2010. Í hvert sinn sem Ramsey fékk boltann bauluðu áhorfendur og tóku að kyrja ljóta söngva um hann sem spilaði allan leikinn sem endaði 0:0.

Það tók Ramsey sjö mánuði að jafna sig. Flestir fjölmiðlar í Bretlandi eru sammála um að stuðningsmenn Stoke hafi farið langt yfir strikið og fordæma hegðun þeirra.

„Ég reyni að loka eyrunum, það er besta leiðin,“ sagði Wenger og bætti við að þúsundir áhorfenda á Brittania-vellinum ættu að skammast sín. „Ég veit ekki hvað á að gera í svona aðstæðum. Þegar fólk kemur saman er eins og það gleymi sínum skyldum sem einstaklingur. Vonandi horfir einhver á þetta í sjónvarpinu og sér að sér.“

Arsenal-goðsögnin Ian Wright og einn frægasti stuðningsmaður Arsenal, Piers Morgan, ásamt Matt Le Tissier og Oliver Holt, yfirmaður íþróttadeildar Mail on Sunday, sáu ástæðu til að tísta um niðrandi söngva Stoke-stuðningsmanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert