Spurður áður en Liverpool kaupir Ibrahimovic

Zlatan Ibrahimovic barst til tals á blaðamannafundi Liverpool í dag.
Zlatan Ibrahimovic barst til tals á blaðamannafundi Liverpool í dag. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool segist vera fyllilega sáttur við hlutskipti sitt hjá félaginu er varðar leikmannakaup félagsins.

Klopp hefur lokaákvörðunina þegar leikmenn eru keyptir til félagsins en nefnd á vegum þess sér hins vegar oftar en ekki um val á leikmönnum.

„Ég hef sagt það frá fyrsta degi að svona er ég vanur að vinna. Stundum fær starfsfólk mitt eða ég sjálfur hugmynd um leikmann eða fáum afspurn af leikmönnum. Það er ekki mitt hlutverk að klippa myndskeið,“ sagði Klopp þegar hann sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag þar sem Liverpool mætir Exeter í enska bikarnum á morgun.

„En á endanum er það eins og ég sagði á fyrsta fundi mínum hjá félaginu og á fyrsta blaðamannafundinum að ef ég vil ekki leikmanninn, þá kemur hann ekki,” sagði Klopp en viðurkenndi þó að hann gæti þurft að ræða við fólk innan félagsins.

„En ef við tökum Zlatan Ibrahimovic sem dæmi, ég veit ekki hver verðmiðinn á honum er núna en hann er 35 ára er það ekki? Hann gæti jafnvel verið samningslaus, ég veit það ekki. En ef liðið vill kaupa hann á 100 milljónir til dæmis, þá held ég að það sé betra að sé sé spurður áður en samið væri við hann,” sagði Klopp.

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP
mbl.is