Benteke á framtíð hjá Klopp

Jürgen Klopp og Christian Benteke.
Jürgen Klopp og Christian Benteke. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að belgíski framherjinn Christian Benteke eigi hiklaust framtíð fyrir sér hjá félaginu. Hann hefur átt í erfiðleikum með að festa sig í sessi í liði Liverpool í vetur og kaupin á honum frá Aston Villa síðasta sumar hafa verið gagnrýnd víða.

„Auðvitað á hann framtíð fyrir sér hjá okkur, það er engin spurning," svaraði Klopp spurningu um Belgann á fréttamannafundi í gær, og skýrði þá frá því að sumarið 2013 hefði hann hitt Benteke þegar til greina kom að kaupa hann til Borussia Dortmund frá Aston Villa.

„Ég hitti hann og umboðsmann hans á flugvellinum í Düsseldorf. Ég man því miður ekki herbergisnúmerið! Ég hitti satt að segja marga leikmenn og þeir gengu ekki allir til liðs við mig, af hinum og þessum ástæðum.

Við sáum marga leiki með honum, fylgdumst með hvernig hann heldur boltanum, tækni hans, skallatækninni, hvernig hann klárar færin, og svo framvegis. Hann hefur þetta allt, getur verið hinn fullkomni framherji, en það kemur ekki af sjálfu sér. Hann er ekki hættur að taka framförum, og sem lið erum við það ekki heldur, svo báðir aðilar eru einhvers staðar á leiðinni," sagði Klopp.

Liverpool tekur á móti Exeter í 3. umferð bikarkeppninnar á Anfield í kvöld en liðin gerðu 2:2 jafntefli á heimavelli D-deildarliðsins fyrr í þessum mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert