Liverpool þarf að stoppa lekann

Mun Klopp krækja í varnarmann á næstu dögum?
Mun Klopp krækja í varnarmann á næstu dögum? AFP

Sparkspekingurinn Graeme Souness segir að Liverpool ætti að leita allra leiða til að krækja í varnarmann í janúarglugganum. Hann hefur áhyggjur af því hversu mörg mörk liðið fær á sig.

Souness, sem lék og stýrði Liverpool á sínum tíma, segir að ferskir straumar fylgi knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp. Hins vegar þurfi þýski knattspyrnustjórinn að sanna sig á leikmannamarkaðnum.

„Bestu liðin hafa bestu leikmennina. Hans verkefni er að ná í sterka leikmenn og ég tel að hann muni nota þau sambönd sem hann hefur í Þýskalandi til þess,“ sagði Souness.

„Liðið þarfnast styrkingar á nokkrum stöðum. Vörn liðsins lekur og þegar það gerist oft hefur það áhrif á sjálfstraust liðsins. Ég tel að hann ætti að líta á það sem algjört forgangsmál,“ bætti Souness við.

Hann vill einnig að Klopp kaupi sóknarmann. „Ég tel að Liverpool þurfi að fá sóknarmann sem skorar mikið af mörkum. Ég sagði í byrjun tímabils að ef Liverpool ætlaði sér að enda á meðal fjögurra efstu liða yrði Benteke að skora yfir 30 mörk. Það gerist ekki,“ sagði Souness.

mbl.is